Krefst bóta fyrir framhjáhaldsfrétt

Julie Gayet
Julie Gayet AFP

Einkamál frönsku leikkonunnar Julie Gayet gegn Closer-tímaritinu verður tekið fyrir í dag í úthverfi Parísar. Hún höfðaði skaðabótamál gegn tímaritinu fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar með birtingu fréttar og mynda af henni og forseta Frakkalands, François Hollande.

Gayet fer fram á 50 þúsund evrur í bætur, 7,7 milljónir íslenskra króna, og fjögur þúsund evrur í málskostnað.

Closer birti ítarlegar fréttir af því að Hollande hefði haldið við Gayet í tvö ár og í kjölfarið slitu hann og sambýliskona hans til margra ára, Valérie Trierweiler, samvistir.

Meðal annars fylgdu með ljósmyndir af Hollande laumast á fund hennar um miðja nótt á skellinöðru. Jafnframt birti Closer mynd af Gayet í bíl sínum en samkvæmt frönskum lögum fellur bíll innan ákvæða laga um einkalíf.

Leikkonan hefur einnig kært ljósmyndarann til lögreglu en hún segir að hann, Sebastien Valiela, hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar. Ef hann verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að árs fangelsi og 45 þúsund evra sekt.

Laurence Pieau, ritstjóri Closer, segir að þegar fréttin hafi loks verið birt um ástarsambandið hafi fátt annað verið rætt í töluverðan tíma meðal íbúa landsins. „Við unnum vinnuna okkar sem blaðamenn í að greina almenningi rétt frá hlut sem hann hafði rétt á að vita,“ segir hún í viðtali við AFP.

Gayet mun ekki sjálf mæta í réttarsalinn í Nanterre í dag en hún hefur verið lítt áberandi frá því málið kom upp. Hún var hins vegar viðstödd afhendingu Cesar-verðlaunanna á föstudagskvöldið en hún var tilnefnd fyrir leik sinn í aukahlutverki í myndinni Quai d'Orsay.

AFP
Samsett ljósmynd sem sýnir Francois Hollande og leikkonuna Julie Gayet.
Samsett ljósmynd sem sýnir Francois Hollande og leikkonuna Julie Gayet. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert