Front National með mest fylgi

Marine Le Pen, leiðtogi Front National.
Marine Le Pen, leiðtogi Front National. AFP

Franski stjórnmálaflokkurinn Front National undir forystu Marine Le Pen er með mest fylgi vegna kosninganna til Evrópuþingsins ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið IFOP gerði fyrir franska vikublaðið Paris Match og birtar eru í dag.

Samkvæmt könnuninni er Front National með 24% fylgi en næst kemur mið-hægriflokkurinn UMP með 23%. Sósíalistaflokkur François Hollande mælist hins vegar með þriðja mesta fylgið eða 21%.

Búist er við að róttækir hægriflokkar verði helstu sigurvegarar kosninganna í ríkjum Evrópusambandsins en kosið verður til Evrópuþingsins 22.-25. maí næstkomandi. Þátttaka í kosningum til þingsins hefur dregist stöðugt saman frá fyrstu kosningunum og var 43% að meðaltali árið 2009 þegar síðast var kosið.

Frétt mbl.is: Danski þjóðarflokkurinn stærstur

mbl.is

Bloggað um fréttina