Bannað að yfirgefa Taíland

Herinn í Taílandi hefur bannað 155 manns, þar á meðal fyrrverandi leiðtogum landsins, að yfirgefa það. Fyrrverandi forsætisráðherra landins, Yingluck Shinawatra, fór á fund hjá herforingjaráðinu sem nú stýrir landinu, en yfirmenn hersins höfðu boðað á annað hundrað háttsetta einstaklinga í stjórnmálum landsins á sinn fund í Bangkok. Talið er að nokkrir tugir hafi mætt á fundinn.

Yfirmaður taílenska hersins, Prayuth Chan-Ocha, tilkynnti í gær að herinn hefði tekið yfir stjórn landsins til að koma aftur á röð og reglu og hrinda pólitískum umbótum í framkvæmd.

„Allir Taílendingar verða að halda ró sinni og opinberir starfsmenn verða að halda áfram störfum eins og venjulega,“ sagði hann í sjónvarpsávarpi.

Hermenn lokuðu af byggingu hersins í höfuðborginni Bangkok þar sem fulltrúar stríðandi pólitískra fylkinga hafa fundað síðustu daga til að komast að samkomulagi að undirlagi hersins og færðu burt leiðtogana. Óvíst var hvort þeir hefðu verið formlega handteknir.

Herinn hugðist einnig senda hermenn og farartæki til þess að vísa mótmælendum frá þeim stöðum þar sem þeir hafa komið saman. Á þriðjudag lýsti yfirmaður hersins yfir herlögum í landinu og kom á viðræðum milli stjórnarsinna og andstæðinga. Þær virtust ekki hafa borið árangur.

Mótmælendur hafa staðið fyrir fjölmennum götumótmælum og girt af viss svæði í höfuðborginni í marga mánuði en ófriðurinn hófst þar seint á síðasta ári þegar þáverandi forsætisráðherra, Yingluck Shinawatra, leysti upp neðri deild þingsins. Dómstóll svipti hana embætti fyrr í þessum mánuði vegna valdamisnotkunar.

Tugir manna hafa fallið í átökum stuðningsmanna og andstæðinga stjórnvalda síðustu mánuði auk þess sem óróinn hefur sett hagkerfið á hliðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert