„Skemmtum okkur inni á hóteli í staðinn“

Taílenski herinn fer nú með öll völd í Taílandi
Taílenski herinn fer nú með öll völd í Taílandi

Margir Íslendingar eru nú staddir í Taílandi í útskriftarferðum en eins og mbl.is fjallaði um í morgun hefur taílenski her­inn tekið völd­in í land­inu í gær vegna póli­tísks óróa. Fríða Björk Gunnarsdóttir er í útskriftarferð með hópi úr lífefna- og sameindalíffræði og viðskiptafræði og er hópurinn nú staddur á eyjunni Koh Samui sem er í suður Taílandi.

Að sögn Fríðu hafa atburðirnir í Bangkok haft lítil áhrif á ferð þeirra. „Það er útgöngubann eftir klukkan 22 en hér er það ekki mjög strangt. Fararstjórinn okkar er íslensk-taílensk og býr í Bangkok og hún segir að vinir hennar þar séu bara frekar fegnir yfir því að herinn sé búinn að taka yfir. Samkvæmt henni er það er mun öruggara heldur en að hafa tvo stjórnarflokka að takast á. En allt sem við gerum á milli klukkan 5 á morgnana til klukkan 22 á kvöldin er alveg eðlilegt.“

Samkvæmt Fríðu finnur hópurinn fyrir miklu öryggi og að útgöngubannið hafi ekki haft mikil áhrif á ferðina. „Við skemmtum okkur bara saman inni á hóteli í staðinn.“ Fríða segir þó að í fyrstu hafi hópnum ekki litist á blikuna. „Við vorum örlítið stressuð fyrst þegar við vissum ekki alveg hvað útgöngubannið fól í sér. Fararstjórinn okkar er mjög vel inni í málunum, búandi hér, svo hún útskýrði þetta bara strax fyrir okkur. Einnig hvatti hún fólk til að hringja heim því fréttaflutningurinn var svo uppblásinn að fólk heima var farið að hafa áhyggjur.“

Ættjarðarsöngvar í sjónvarpinu

Hópurinn kom til Taílands 13. maí síðastliðinni en fer heim 30. maí. Ferðinni er heitið til Bangkok á þriðjudaginn. „Það er umræða um að útivistarbannið verði afnumið hérna á eyjunum jafnvel á morgun en í Bangkok gæti það orðið lengra. Við höfum ekkert orðið vör við mótmælin hérna þó svo að eitt kvöldið hafi þrír látist í skotárás. Þetta er svo staðbundið að ef maður er ekki að leita í vandræði þá sér maður ekkert,“ segir Fríða en bætir þó við að áhrif ástandsins sjáist kannski helst í sjónvarpinu. „Allar tælensku sjónvarpsstöðvarnar sýna núna bara stillimynd af tælenska fánanum og hertáknum undir ættjarðarsöngvum.“

Hópur Fríðu er ekki eini íslenski útskriftarhópurinn sem er staddur í Tælandi. Bæði er hópur sem útskrifast í sumar úr verkfræði og líffræði á svæðinu og samkvæmt Fríðu hefur útgöngubannið haft lítil áhrif á ferð þeirra.

„Við skemmtum okkur alveg konunglega hérna og fólkið er svo almennilegt. Við eiginlega upplifum okkur öruggari útaf þessu valdaráni heldur en þegar við lentum í hitabeltisstormi í gær. Þá voru meiri áhyggjur út af eldingum og roki heldur en nokkurn tíman útgöngubanni.“

Fríða Björk Gunnarsdóttir
Fríða Björk Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert