Lagarde krefst skuldaniðurfellinga

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur varið umdeildar ákvarðanir sínar um að birta tvær svartar skýrslur um skuldastöðu gríska ríkisins þar sem kallað er eftir því að evruríkin létti verulega skuldabyrði landsins.

Yfirstjórnendur sjóðsins segja að lánardrottnar Grikklands verði að horfa til níðþungra skulda landsins, sem nema yfir 300 milljörðum dala, þegar samið verður um nýjan lánapakka - þann þriðja - til Grikkja. Það sé jafnframt skilyrði fyrir því að sjóðurinn taki áfram þátt í björgunarstarfinu.

Þeir taka jafnframt fram að hrein skuldaniðurfelling sé ekki eini möguleikinn. Einnig komi vel til greina að fresta gjalddögum á lánum evruríkjanna til Grikkja.

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði nýlega í samtali við frönsku útvarpsstöðina Europe 1 að frekari neyðarlán til Grikkja væru „algjörlega ekki“ raunhæf án endurskipulagningar á skuldum ríkisins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leitaði nú að „heildstæðri“ áætlun fyrir Grikki þar sem sérstaklega væri horft til tveggja þátta. Annars vegar þyrfti að koma á verulegum umbótum í grísku efnahagslífi og hins vegar þyrftu lánardrottnar landsins að endurskipuleggja skuldir þess og létta með þeim hætti skuldabyrðina.

Skuldirnar óbærilegar

Þá varði Lagarde einnig ákvörðun sjóðsins um að birta skýrslurnar tvær opinberlega, en þær hafa valdið miklu fjaðrafoki á evrusvæðinu. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að skulda­byrði gríska rík­is­ins sé orðin mun þyngri og óbæri­legri en áður var talið og nauðsyn­legt sé að evrurík­in létti skulda­byrði lands­ins.

Frétt mbl.is: Trúverðugleiki AGS í húfi

Athygli hefur vakið að skýrslunum var lekið í valda fjölmiðla á afar viðkvæmum tíma. Þeirri fyrri var lekið aðeins fáeinum dögum fyr­ir þjóðar­at­kvæðagreiðsluna í Grikklandi þann 5. júlí, þar sem Grikk­ir höfnuðu skil­mál­um lán­ar­drottn­anna, og þeirri síðari örfáum klukkutímum áður en gríska og þýska þingið greiddu at­kvæði um lánapakk­ann sem evru­rík­in hafa boðið Grikklandi.

Lagarde sagði að stjórnendur sjóðsins hefðu um langt skeið, marga mánuði, fært rök fyrir skuldaniðurfellingum - í lokuðum hópum eða einkasamtölum - án þess að greina sérstaklega frá því opinberlega. Nú hefðu þeir hins vegar ákveðið að birta greiningar sjóðsins á skuldastöðu Grikklands vegna þess að „það [væri] best að hafa allt uppi á borðum“.

Andstaðan byggð á „ruglingi“

David Lipton, aðstoðarframkvæmdastjóri AGS, sagði í samtali við Bloomberg að það að fresta gjalddögum á lánum gríska ríkisins væri „gerleg leið“ til þess að draga úr skuldum landsins, sem sjóðurinn telur nú að geti náð 200 prósentum af vergri landsframleiðslu Grikklands á næstu tveimur árum.

Þess má geta að skuldirnar nema nú tæplega 180 prósentum af vergri landsframleiðslu ríksins en árið 2010, þegar evrukrísan skall á, stóð hlutfallið í 127 prósentum. 

Lipton sagði jafnframt að andstaða sumra evruríkja - þá fyrst og fremst Þjóðverja - við greiningu sjóðsins væri að miklu leyti byggð á „ruglingi“.

„Við höfum reiknað dæmið. Við teljum að þetta gæti virkað,“ sagði Lipton.

Þjóðverjar hafa bent á að lánardrottnar Grikklands hafi nú þegar endurskipulagt skuldir landsins, árið 2012, með því að gera Grikkjum kleift að skuldbreyta og lengja í eldri lánum. Lipton nefndi hins vegar í viðtalinu að nú væri þörf á skilmerkilegri aðgerðum. „Og ég held að við munum komast að niðurstöðu.“

Bankastjórinn sannfærður

Fréttaskýrendur benda á að umræðan í Evrópu hafi breyst að einhverju leyti undanfarnar vikur, Grikkjum í hag. Það sé til að mynda vaxandi skilningur á því að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja - með einum eða öðrum hætti - skuldir Grikklands. Það hefur áður fyrr ekki þótt sjálfsagt.

Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, nefndi til dæmis á blaðamannafundi í seinustu viku að það væri nú „óumdeilt“ að skuldaniðurfelling væri nauðsynleg, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Þá hefur Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagt að afstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þýði að skuldastaða gríska ríkisins verði rædd sérstaklega í komandi viðræðum lánardrottnanna við grísk stjórnvöld um þriðja lánapakkann.

„Þessi spurning er greinilega komin aftur á dagskrá,“ sagði hann við fjölmiðla í Brussel í seinustu viku.

„Þetta er einnig eitthvað sem AGS hefur lagt áherslu á og það var skýr niðurstaða á fundi leiðtoga evruríkjanna að AGS ætti að vera hluti af þriðju áætluninni,“ sagði hann.

Skuldaniðurfellingar ræddar á næsta ári?

Hann benti þó á, eins og kom reyndar áður fram, að lánardrottnar Grikklands hefðu þegar samþykkt að fresta gjalddögum á lánum ríkisins. Það þýðir meðal annars að Grikkir þurfa ekki að greiða vexti af lánunum fyrr en árið 2020 og þá þurfa þeir ekki að greiða inn á höfuðstólinn fyrr en eftir árið 2023. Það hefur gert það að verkum, að sögn Dombrovskis, að lántökukostnaður Grikklands er nú lægri en í Ítalíu og Portúgal.

Samkvæmt samkomulaginu sem lánardrottnarnir og grísk stjórnvöld náðu eftir sautján klukkutíma maraþonfund 13. júlí síðastliðinn verður ekki rætt um mögulegar skuldaniðurfellingar til handa Grikkjum fyrr en að lánapakkinn hefur verið endurskoðaður að minnsta kosti einu sinni. Ræðst það einnig af því hvernig Grikkjum muni ganga að koma á efnahagsumbótum í landinu.

Hagfræðingar Citibank telja því ekki líklegt að málið - þ.e. hvernig megi afskrifa skuldir Grikklands - komist á dagskrá fyrr en á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti þó að geta sætt sig við slíka töf, þar sem núverandi björgunaráætlun sjóðsins rennur ekki út fyrr en í marsmánuði 2016.

Mótmælt fyrir utan gríska þinghúsið.
Mótmælt fyrir utan gríska þinghúsið. AFP
Biðröð fyrir framan banka í Aþenu. Grískir bankar opnuðu seinasta ...
Biðröð fyrir framan banka í Aþenu. Grískir bankar opnuðu seinasta mánudag, eftir að hafa verið lokaðir í þrjár vikur, en gjaldeyrishöft eru enn við lýði. AFP
Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, telur nauðsynlegt að endurskipuleggja skuldir ...
Mario Draghi, bankastjóri Evrópska seðlabankans, telur nauðsynlegt að endurskipuleggja skuldir gríska ríkisins. AFP
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP
Angela Merkel kanslari og Wolfgang Schable, fjármálaráðherra Grikklands.
Angela Merkel kanslari og Wolfgang Schable, fjármálaráðherra Grikklands. AFP
Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AFP
mbl.is
Barnakerra
Til sölu Emmaljunga barnakerra. (Kerruvagn) Vel með farinn. Tilboð óskast...Sím...
Þreyttur á reykinga- myglulykt, lausn ?
Eyðir flest allri ólykt, m.a. Myglu-gró ásamt og raka- reykinga- og brunalykt. ...
Fasteignir
Leitar þú að fasteignasala? Ég sel fyrir þig. Vertu í sambandi. Sigrún Ma...
Toyota Yaris 2005 sjálfskiptur kr290.000
Til sölu (for sale) skoðaður Toyota Yaris sjálfskiptur, árg. 2005, ekinn 150.000...