Synjað um bætur því hann þjáðist ekki nógu mikið

Minnisvarði hefur verið reistur við göngin sem grafin voru frá …
Minnisvarði hefur verið reistur við göngin sem grafin voru frá Stalag Luft III. Ljósmynd/Wikipedia

Breskum hermanni sem lifði af dvöl í útrýmingarbúðum nasista var synjað um bætur, eftir að breska ríkið kvað upp þann úrskurð að hann hefði ekki þjáðst nóg. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem nýlega voru gerð opinber. 

Bertram „Jimmy“ James var liðsforingi í breska flughernum og tók þátt í flóttanum mikla sem kvikmyndin The Great Escape byggði á.  James dvaldi fimm mánuði í einangrunarvist, það ár sem hann var vistaður í Sachsenhausen útrýmingarbúðunum í Þýskalandi, í kjölfar þess að hann var gripinn eftir flóttann úr Stalag Luft III stríðsfangabúðunum í mars 1944.

Flóttinn úr Stalag Luft III var innblásturinn að kvikmyndinni The Great Escape frá 1963 sem Steve McQueen fór með eitt aðalhlutverkið í.

Sambandslýðveldið Þýskalandi samþykkti árið 1964 að greiða breskum stjórnvöldum 1 milljón punda (um 198 milljónir króna) í bætur, sem deila átti meðal breskra fórnarlamba ofsókna Nasista.

James var í hópi þeirra sem sótti til Utanríkisráðuneytisins um bætur, en var synjað á þeim grundvelli að hann hefði ekki verið fórnarlamb ofsókna, að því er fram kemur í skjölum í breska þjóðskjalasafninu sem leyndinni var svipt af í dag.

Reyndi að flýja 13 sinnum

Í skýrslunni má finna lýsingu á árum hans í fangabúðunum og fífldjörfum flóttatilraunum.

James var tekinn höndum af nasistum eftir að flugvél hans var skotinn niður yfir Hollandi 1940 og gerði 13 tilraunir til að flýja á næstu fimm árum.

Hann dulbjó sig m.a. sem starfsmann sögunarmyllu í flóttanum frá Stalag Luft III þar sem 76 fangar flúðu. James var síðan einn þeirra 73 sem náðust aftur, en alls voru 50 þeirra teknir af lífi.

Í umsókn sinni viðurkenndi James að hann hefði ekki búið við jafn slæmar aðstæður og margir aðrir fangar og að hann byggi ekki við varanlega neina varanlega fötlun eftir fangavistina.

„Engu að síður er þetta lífsreynsla sem ég hefði helst viljað vera án,“ sagði James í umsókninni sem Utanríkisráðuneytið hafnaði.

„Mál þitt hefur verið skoðað vandlega og mér þykir miður að segja þér að umsókn þín er ekki samþykkt,“ sagði í bréfi ráðuneytisins. „Aðstæður í Sonderlander hluta Sachsenhausen búðanna voru slíkar að þú sættir aldrei þeirri gerð ofsókna."

James svaraði því til að hann væri vonsvikin og útlistaði yfirheyrsluaðferðirnar og pyntingarnar sem hann hefði sætt, m.a. með því að horfa á aðra fanga barða og þeim unnið til húðar áður en lík þeirra voru brennd á varðeldum.

Það var ekki fyrr en eftir rannsókn sérstakrar þingnefndar árið 1968 að þeir sem lifðu af dvölina í Sachsenhausen búðunum hlutu bætur, og voru James þá dæmd 1,192 pund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert