Óttast að 75 hafi farist

Leikmenn Chapecoense fögnuðu þegar þeir lögðu San Lorenzo í undanúrslitum …
Leikmenn Chapecoense fögnuðu þegar þeir lögðu San Lorenzo í undanúrslitum Copa Sudamericana. Óttast er að 75 hafi látist þegar flugvél liðsins hrapaði í nótt. AFP

Brasilíska knattspyrnuliðið Chapecoense neyddist til þess að breyta flugáætlun sinni til Medellín eftir að brasilísk flugmálayfirvöld veittu ekki heimild fyrir leiguflugvél sem það ætlaði að taka. Að minnsta kosti 25 eru sagðir hafa farist með áætlunarflugvélinni sem liðið ferðaðist á endanum með.

Kólumbíska dagblaðið El Colombiano segir í frétt á vefsíðu sinni að flugmálayfirvöld í Brasilíu hafi ekki veitt heimild fyrir leiguflugvél sem knattspyrnuliðið ætlaði að fljúga með til Medellín þar sem það átti að leika fyrri leik í úrslitum Copa Sudamericana gegn heimamönnum Atlético Nacional.

Frétt Mbl.is: Sex lifðu flugslysið af

Liðið flaug því í gegnum borgina Santa Cruz de la Sierra í Bólivíu. Áætlunarflugvélin sem það tók var af gerðinni Avro RJ85/British Aerospace 146 á vegum flugfélagsins LaMía. Vélin er sögð hafa beðið eftir því að veðuraðstæður bötnuðu á José María Córdova-alþjóðaflugvellinum í Rionegro í Kólumbíu þegar hún hrapaði í fjalllendi. Breska ríkisútvarpið BBC segir að flugmenn vélarinnar hafi tilkynnt um rafmagnstruflanir um borð.

Alls var 81 um borð í vélinni, 72 farþegar og níu manna áhöfn. Auk knattspyrnumannanna og stjórnenda liðsins er hópur blaðamanna sagður hafa verið um borð í vélinni. AFP-fréttastofan segir að í það minnsta 25 séu látnir en fimm hafi lifað slysið af. Lögreglan í Medellín óttast hins vegar að allt að 75 manns hafi farist.

Flugmálayfirvöld í Kólumbíu hafa nú birt allan farþegalistann á netinu, að því er kemur fram hjá breska blaðinu The Guardian.

Þar er einnig haft eftir Alfredo Bocanegra, yfirmanni flugmálastjórnar Kólumbíu, að vélin hafi fengið forgangsheimild til að lenda. Flugmennirnir hafi tilkynnt um neyðarástand í aðfluginu og vélin hafi ekki komist að flugbrautinni.

Aðstæður á slysstað eru erfiðar. Aðeins hefur verið hægt að komast á staðinn landleiðina en þoka og rigning hafa hamlað því að hægt sé að nota þyrlur. Þá hefur ekki verið hægt að koma sjúkrabílum alveg að flaki vélarinnar, að sögn El Colombiano. Þess í stað hefur björgunarfólk verið flutt til og frá slysstaðnum með sendibílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert