„Ég fer í friði“

Borðið í Huntsville-fangelsinu þar sem fangar eru teknir af lífi.
Borðið í Huntsville-fangelsinu þar sem fangar eru teknir af lífi. AFP

Yfirvöld í Texas tóku í gær mann af lífi sem var dæmdur til dauða fyrir leigumorð. Maðurinn þáði 2.000 dollara greiðslu, um 280 þúsund krónur að núvirði, fyrir að drepa konu svo eiginmaður hennar gæti fengið greidda út líftryggingu hennar. Morðið framdi hann fyrir 25 árum árið 1992.

Rolando Ruiz var 44 ára. Honum var gefin banvæn sprauta í fangelsinu í Huntsville seint í gærkvöldi. Áður en hann dó gaf hann út stutta yfirlýsingu þar sem hann bað fjölskyldu fórnarlambsins innilega afsökunar. 

„Orð fá því ekki lýst hversu mikið mér þykir fyrir þessu og þeim sársauka sem ég olli þér og fjölskyldu þinni. Megi þetta færa þér frið og fyrirgefningu.“

Hann þakkaði einnig fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn og sagði: „Ég fer í friði.“

Í júlí árið 1992 bauð Mark Rodriguez Ruiz peninga til að drepa mágkonu sína, Theresu Rodriguez. Ruiz gekk að þessu og ætlaði í fyrstu að drepa hana á veitingastað en hætti við þegar hann sá öryggisvörð. Hann lagði svo enn frekar á ráðin með Rodriguez og bróður hans, Michael Rodriguez, sem var eiginmaður konunnar. 

Hann réðst svo á þau þrjú úr launsátri er þau voru að koma heim úr kvikmyndahúsi. Hann skaut eiginkonuna í höfuðið er hún kom út úr bíl sínum. 

Rodriguez-bræðurnir fengu lífstíðardóm í fyrstu en Michael fékk síðar dauðadóm þar sem hann reyndi að strjúka úr fangelsinu og myrti lögreglumann á flóttanum. 

Hann var tekinn af lífi árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert