Ólympíugullhafi lýsir kynferðisáreiti

Maroney segist hafa verið áreitt af lækni bandaríska landsliðsins frá …
Maroney segist hafa verið áreitt af lækni bandaríska landsliðsins frá 13 ára aldri. AFP

Bandaríska fimleikastjarnan og Ólympíugullhafinn, McKayla Maroyne, hefur tjáð sig á Twitter undir myllumerkinu #MeToo um að hún hafi verið áreitt kynferðislega árum saman af fyrrverandi lækni bandaríska fimleikalandsliðsins, Larry Nassar.

Hin 21 árs gamla Maroney, sagði í færslu sinni að Nassar, sem hefur verið ákærður í yfir 20 liðum, fyrir kynferðislegt áreiti, hefði byrjað að áreita hana þegar hún var 13 ára. Áteitið hélt svo áfram allan fimleikaferil hennar.

„Nassar sagði mér að ég væri að fá nauðsynlega læknismeðferð sem hann hefði framkvæmt á sjúklingum sínum í yfir 30 ár. Þetta byrjaði þegar ég var 13 ára, í fyrstu æfingabúðunum sem ég fór í með landsliðinu, og hélt áfram þangað til ég hætti að keppa. Þessi maður virtist nýta hvert tækifæri sem hann gat til að „meðhöndla“ mig,“ sagði Maroney meðal annars í færslu sinni.

Áreitið stóð meira að segja yfir á Ólympíuleikunum í London árið 2012 þegar Maroney vann Ólympíugullið ásamt liði sínu. „Þetta gerðist í London áður en liðið mitt vann til gullverðlauna og þetta gerðist áður en ég vann til silfurverðlauna.“

Maroney sagðist vera innblásin af öllum þeim konum sem hafa greint frá kynferðislegu áreiti og ofbeldi undir myllumerkinu #MeToo síðustu daga. „Ég veit hvað það er erfitt að tala opinskátt um eitthvað svo hræðilegt og persónulegt, því þetta kom fyrir mig

Fleiri bandarískar fimleikastjörnur hafa tjáð sig um áreiti af hálfu Nassar, en Maroney er sú langþekktasta. „Fólk verður að vita að þetta gerist ekki bara í Hollywood, þetta getur gerst hvar sem er. Ég átti mér draum um að komast á Ólympíuleikana, og það sem ég þurfti að líða til að komast þangað var óþarfi og viðbjóðslegt.“

mbl.is