Fundu krókódíl í garðinum á jóladag

Ekki fylgdi fréttinni hverrar tegundar krókódillinn var, en hann var …
Ekki fylgdi fréttinni hverrar tegundar krókódillinn var, en hann var þó all stór að sögn snákafangarans og þykir vera hans í borgnni hið dularfyllsta mál. Mynd úr safni. AFP

Lögreglan í Melbourne í Ástralíu leitar nú vísbendinga um það hvernig saltvatnskrókódíll gat endað inni í húsagarði í einu af hverfum borgarinnar. Fólki sem var í göngu á jóladagsmorgun brá allverulega í brún þegar það sá eins metra langan saltvatnskrókódíl framan við íbúðarhús í borginni.

Fjallað er um málið á vef Guardian sem segir lögregluna hafa dregið þessar fréttir í efa í fyrstu og talið líklegra að þarna væri stór eðla á ferð. Göngufólkið reyndist þó hafa á réttu að standa og kalla þurfti til sérstakan snákafangara til að fanga skepnuna. Sá mun enn fremur hafa króksa í haldi þar til starfsmenn umhverfisstofnunar sækja hann.

Snákafangarinn, Mark Pelley, sagðist hafa fengið símtal frá lögreglunni um hálfníuleytið á jóladagsmorgun. „Það er krókódíll á gangi á götum og hann er núna staddur fyrir utan læknastöð,“ segir Pelley lögreglu hafa sagt við sig.

„Þetta er símtalið sem ég hef alltaf beðið eftir,“ sagði hann við 3AW-útvarpsstöðina. „Ég kom síðan að fimm lögreglumönnum í störukeppni við allstóran krókódíl sem ekki ætlaði að gefa eftir.“

Málið þykir hið dularfyllsta og hefur lögregla ekki hugmynd um hvaðan krókódíllinn kom.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert