Google kom upp um „flassarann“

AFP

Vörn Svía á sjötugsaldri varð að engu eftir að myndavélar Google Street View sýndu fram á að ásakanir á hendur honum um strípihneigð væru á rökum reistar.

Maðurinn beraði kynfæri sín fyrir framan nokkur börn þar sem hann var á svölum íbúðar sinnar í bænum Umeå. Maðurinn neitaði sök og hélt því fram við réttarhöldin að hann hefði ekki verið á svölunum þessa umræddu daga sem nefndir voru í ákæru á hendur honum. En myndir sem bifreið á vegum Google tók af honum á svölunum sýndu fram á annað.

Hann hefur nú verið dæmdur fyrir átján kynferðisbrot. Flest brotin eru gagnvart börnum, segir í frétt Västerbottens-Kuriren.

The Local fjallar um fréttina í héraðsblaðinu en þar kemur fram að maðurinn býr í næsta nágrenni grunnskóla og á hann að hafa öskrað á krakkana til þess að ná athygli barnanna. Þegar þau litu upp á manninn reyndist hann vera brókarlaus á svölunum.

Myndir Google Street View hröktu neitun mannsins um að hafa verið út á svölum þessa umræddu daga því þar sást maðurinn - að vísu á brókinni - á svölunum. Dómarar við héraðsdóm lögðu því ekki trúnað á orð mannsins en brotin framdi hann á þriggja ára tímabili, 2014-2017. Fékk hann skilorðsbundinn dóm og sekt. Jafnframt var honum gert að greiða fórnarlömbunum miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert