Hinrik prins með góðkynja æxli í lunga

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar.
Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar. AFP

Hinrik prins, eig­inmaður Mar­grét­ar Þór­hild­ar Dana­drottn­ing­ar, er með góðkynja æxli í lunga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dönsku konungsfjölskyldunni.

Hinrik, sem er 83 ára og var greindur með heilabilun í fyrra, var lagður inn á sjúkra­hús um síðustu helgi við komu sína til Kaupmannahafnar frá Egyptalandi þar sem hann hefur dvalið frá því í janúar. Hann var send­ur í frek­ari rann­sókn­ir á Rík­is­sjúkra­húsið í Kaup­manna­höfn þar sem góðkynja æxlið kom í ljós.

Frétt mbl.is: Hinrik prins á sjúkrahúsi

Í frétt The Local segir að Hinrik hafi verið fluttur á smitsjúkdómadeild sjúkrahússins þar sem hann fær meðferð við sýkingu í lungum. Eftir að meðferðinni lýkur verður prinsinn fluttur í kastalann í Fredensborg. Margrét Þórildur, drottningin, hefur nú þegar flutt aðsetur sitt í kastalann.

Hinrik, sem er fransk­ur, gekk að eiga Mar­gréti Þór­hild­i árið 1967. Þegar Mar­grét varð drottn­ing árið 1972 fékk hann ekki kon­ung­s­tign og hef­ur Hinrik aldrei farið leynt með óánægju sínu hvað það varðar. Hann hefur meðal annars tilkynnt að hann vilji ekki vera jarðsettur við hlið drottningarinnar þegar að því kemur þar sem hann hafi aldrei verið álitinn jafningi hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert