Íhuga viðskiptabann á olíu frá Venesúela

Rex Tillerson á blaðamannafundi í Argentínu í dag.
Rex Tillerson á blaðamannafundi í Argentínu í dag. AFP

Bandarísk stjórnvöld útiloka ekki að sett verði á viðskiptabann á olíu frá Venesúela til að beita forseta landsins, Nicolas Maduro, enn meiri þrýstingi. Óttast er þó að viðskiptabannið myndi bitna harkalega á óbreyttum borgurum.

Rex Tillerson utanríkisráðherra er nú staddur í Argentínu á ferð sinni um Suður-Ameríku þar sem hann leitar stuðnings leiðtoga landa til að þrýsta á stjórnvöld í Venesúela að hætta við boðaðar forsetakosningar sem Bandaríkjamenn og fleiri telja ólögmætar. 

Tillerson hefur orðið nokkuð ágengt og hefur m.a. tryggt sér stuðning utanríkisráðherra Argentínu. En margir eru þó hikandi við að beita viðskiptaþvingunum.

Algjört neyðarúrræði

Á blaðamannafundi sem hann hélt í dag sagði hann að það yrði neyðarúrræði að grípa til viðskiptabanns á olíu frá Venesúela. Hann sagðist deila áhyggjum annarra leiðtoga af því að bannið myndi bitna illa á almennum borgurum. 

Stjórnmálaástandið í Venesúela hefur gert það að verkum að hagkerfi landsins er hrunið og yfir íbúum landsins vofa gríðarlegar þrengingar. 

Tillerson tekur einnig undir að viðskiptabann á olíu frá Venesúela myndi einnig bitna á bandarískum fyrirtækjum sem hafa byggt upp olíuhreinsistöðvar þar sem olía frá Venesúela er hreinsuð.

Tillerson segir að ef viðskiptabann yrði sett á væri ekki hægt að selja olíu frá Venesúela í Bandaríkjunum. En hann segir þó enn ekki útilokað að gripið verði til slíkra ráðstafana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert