Enginn þorir að tjá sig

Lögreglan að störfum í London Road kirkjugarðinum í Salisbury.
Lögreglan að störfum í London Road kirkjugarðinum í Salisbury. AFP

Julia, dóttir rússneska njósnarins fyrrverandi, Sergei Skripal, hefur ekki gert neitt til þess að verðskulda það að verða skotspónn efnavopnaárásar. Feðginin eru bæði á gjörgæsludeild eftir að hafa orðið fyrir taugagaseitrun á sunnudag.

Æskuvinkona hennar ræddi við BBC um Skripal-fjölskylduna sem Irina Petrova segir að hafi verið hin fullkomna fjölskylda. Hún segist halda að fólk þori ekki að ræða um fjölskylduna af ótta við að verða fyrir árás.

„Ég er að verða hrædd,“ segir hún. Enginn þorir að tala - ekki einu sinni ættingjar hennar,“ bætir Petrova við.

AFP

Innanríkisráðherra Bretlands, Amber Rudd, stýrir fundum neyðarnefndar ríkisstjórnarinnar, Cobra, varðandi eitrunina en rannsókn á manndrápstilrauninni stendur enn yfir. Ríkisstjórnin segir að hart verði brugðist við því að einhver hafi framið hryllilegan glæp á breskri grund.

Petrova segir að ættingjar Skripal-fjölskyldunnar vilji ekki tala en ekki séu margir eftir á lífi. Móðir Juliu, frændi og eldri bróðir hafa öll látist á undanförnum árum.

Julia Skripal, sem var í heimsókn hjá föður sínum, býr í Moskvu. Hún hefur unnið fyrir alþjóðleg fyrirtæki eins og Nike og PepsiCo. Hún flutti frá Rússlandi til Bretlands með föður sínum árið 2010 en flutti aftur til Moskvu fimm árum síðar. 

Lögregla er að störfum í kirkjugarðinum þar sem mæðginin, Liudmila og Alexander, eru jarðsett og hefur verið greint frá því að herinn komi að rannsókninni ásamt lögreglu. 

Alexander Skripal lést í Pétursborg úr lifrarbilun í júlí í fyrra en hann var 43 ára gamall. Móðir Júlíu lést úr krabbameini árið 2012.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert