Hæsta lágmarksverð sögunnar

Settar eru 150 milljónir Bandaríkjadala, 15,2 milljarðar króna, á málverk ítalska myndlistarmannsins Amedeo Modigliani á uppboði í næsta mánuði. 

Um er að ræða eina af níu nektarmyndum Modigliani sem eru í eigu einkasafnara. Verkið, Nu couché (Sur le côté gauche), er frá árinu 1917 og var sýnt hjá Sotheby's í Hong Kong í gær. Uppboðið fer aftur á móti fram í New York 14. maí.

Olíumálverkið er fremur stórt (147 cm á breidd) og er það stærsta sem Modigliani málaði. Það er af nakinni konu liggjandi á hlið og er það eina sem hann málaði af líkama nakinnar konu í fullri stærð.

Ekki hefur verið upplýst hver seljandinn er en verkið þykir einstakt. Bloomberg greinir aftur á móti frá því að  írski milljarðamæringurinn John Magnier eigi verkið.

Aldrei áður hefur verið sett svo hátt verð á málverk áður en uppboð fer fram. Árið 2015 voru settar 140 milljónir Bandaríkjadala á verk Pablo Picasso, Les femmes d'Alger (version O) hjá uppboðshúsi Christie's í New York.

Annað málverk Modigliani af nakinni konu var selt á 170,4 milljónir dala á uppboði í New York 2015. Það var selt til Kína. En dýrasta verk sem sögur fara af er verk Leonardo da Vinci, Salvator Mundi, en það var selt á 450 milljónir Bandaríkjadala í fyrra. Fyrir uppboðið voru 100 milljónir dala settar sem lágmarksboð. 

mbl.is