Leyfið Bretum að gerast Belgar

Evrópuþingið í Brussel. Um 1.100 Bretar starfa fyrir ESB í …
Evrópuþingið í Brussel. Um 1.100 Bretar starfa fyrir ESB í Brussel og hafa margir þeirra áhyggjur af stöðu sinni er Bretland gengur úr sambandinu í mars á næsta ári. mbl.is/Hjörtur

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hvetur belgísk stjórnvöld til að veita breskum starfsmönnum Evrópusambandsins, sem búsettir eru í Brussel, belgískan ríkisborgararétt. Um 1.100 Bretar starfa í Brussel fyrir ESB og hafa margir þeirra áhyggjur af stöðu sinni þegar Bretland gengur úr Evrópusambandinu í mars á næsta ári, en Bretar munu þá tapa evrópskum ríkisborgararétti sínum.

Sagði Juncker Belga vera góðan gestgjafa, að því er BBC greinir frá, og hvatti forsætisráðherra landsins Charles Michel til að sýna samskonar örlæti er kemur að því að veita breskum ESB starfsmönnum belgískan ríkisborgararétt.

Bresk stjórnvöld og ESB hafa þegar náð samkomulagi um að vernda réttindi borgara eftir útgönguna, en það felur hins vegar ekki í sér að veita Bretar haldi ESB ríkisborgarrétti sínum, eða að ESB borgarar búsettir í Bretlandi fá ríkisborgararétt þar í landi.

Ein af  starfsmannareglum ESB kveður á um að „embættismaður kunni að vera beðinn um að segja af sér embætti“ ef hann missir evrópskan ríkisborgararétt sinn eða er ekki lengur ríkisborgari í einu af ríkjum ESB.

Fjölmargir þeirra Breta sem starfa fyrir ESB í Brussel hafa búið í Belgíu ásamt fjölskyldum sínum um árabil.

Samkvæmt minnisblaði framkvæmdastjórnar ESB sem fréttavefurinn Politico birti í síðasta mánuði, þá munu breskir starfsmenn ekki missa vinnuna, nema í þeim tilfellum þar sem hagsmunaárekstur eða alþjóðlegir skilmálar valdi erfiðleikum.

Belgíski forsætisráðherrann hefur ekki enn tjáð sig um beiðni Junckers að öðru leiti en því að segja að „mótsögn“ felist í því að veita Bretunum ríkisborgararétt í kjölfar Brexit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert