Misvísandi túlkanir á texta

Texti á jakka sem Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, var í þegar hún fór um borð í flugvélina sem flutti hana til að landamærum Mexíkó í Texas hefur vakið mikla athygli. Talskona Melaniu segir að engin skilaboð séu falin í textanum en forsetinn er ekki á sama máli. 

Líkt og fram hefur komið heimsótti Melania Trump búðir sem hýsa flóttabörn á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna í gær. Það sem virðist vekja mesta athygli er jakkinn sem hún klæddist þegar hún fór um borð í flugvélina. Á baki jakkans, sem er ólífugrænn kakí-jakki, stendur: „I really don't care, do you?“ 

Var jakkinn valinn viljandi eða gerði forsetafrúin sér enga grein fyrir því hvað var hægt að lesa út úr valinu?

Myndir af Melaniu að fara um borð í flugvélina í græna jakkanum fóru strax á flug um samfélagsmiðla og fjölmiðla á sama tíma og forseti Bandaríkjanna er harðlega gagnrýndur fyrir framkomu stjórnvalda í garð flóttafólks.

Þegar talskona forsetafrúarinnar, Stephanie Grisham, var spurð út í jakkann, sem fæst í verslunum Zöru og kostar 39 Bandaríkjadali, sagði hún að engin falin skilaboð væru falin í valinu. 

„Þetta er jakki,“ sagði Grisham. „Eftir þessa mikilvægu heimsókn til Texas í dag vona ég að fjölmiðlar muni ekki einblína á fataskáp hennar.“

En eiginmaður Melaniu, Donald Trump, er ekki á sama máli því hann segir skilaboð svo sannarlega falin í áletruninni. Þar sé hún að tala um lygafréttir. Hún hafi lært af reynslunni hversu óheiðarlegir fjölmiðlar eru og er orðið nákvæmlega sama um þá. 

Þegar flugvélin lenti í McAllen í Texas hafði forsetafrúin skipt um jakka og steig frá borði klæd í ljósum jakka með engri áletrun. En þegar hún sneri aftur heim í Hvíta húsið var hún komin aftur í jakkann umdeilda. Skipti engu að það var steikjandi hiti og rakt í Washington. 

Melania Trump heimsótti í gær, án þess að tilkynnt væri um það fyrir fram, búðir fyrir flóttabörn en daginn áður hafði eiginmaður hennar skrifað undir tilskipun um að hætta aðskilnaði fjölskyldna á landamærunum. Um síðustu helgi sagði Melania einmitt að það ætti að hætta að skilja börn frá foreldrum sínum. Í svipaðan streng hafa fyrrverandi forsetafrúr Bandaríkjanna tekið að undanförnu. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem klæðnaður Melaniu Trump vekur athygli en í fyrra varð mörgum starsýnt á skóna sem hún valdi að klæðast þegar hún heimsótti svæði sem urðu illa úti þegar fellibylurinn Harvey reið yfir. Um svarta hælaskó var að ræða sem er kannski ekki þægilegasti skófatnaðurinn þegar farið er á hamfarasvæði af völdum náttúruhamfara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert