Hryllingur neðanþilja í skipsflakinu

Hryllingur beið björgunarmanna sem köfuðu inn á neðra farrými skemmtibátsins Phoenix sem sökk í óveðri í Taílandi á fimmtudag. Að minnsta kosti 41 fórst, þar á meðal mæður sem fundust drukknaðar með lík barna sinna í fanginu. Flestir þeirra sem létust lokuðust inni í neðra farrýminu á meðan 48 farþegum og áhöfn bátsins tókst að komast frá borði.

15 er enn saknað en flestir um borð voru kínverskir ferðamenn. „Þetta er erfitt og hefur mikil áhrif á mann eins og þú getur rétt ímyndað þér. Að finna lík barna, smábarna í faðmi mæðra í flakinu,“ segir Philippe Entremont, framkvæmdastjóri köfunarþjónustu á Phuket-eyju, sem tekur þátt í björgunaraðgerðum. Hann segir að þeir hugsi aðallega um að reyna að finna líkin og koma þeim upp úr sjónum í faðm fjölskyldunnar. 

Flestir af helstu köfurum Taílands eru í norðurhluta landsins þar sem unnið er í kapphlaupi við tímann að bjarga tólf drengjum og knattspyrnuþjálfara þeirra úr helli. Því eru það aðallega sjálfboðaliðar sem hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum við Phuket-eyju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert