Hvetja fyrirtæki til að ögra Trump

Federica Mogherini hefur hvatt fyrirtæki til að taka sínar eigin …
Federica Mogherini hefur hvatt fyrirtæki til að taka sínar eigin ákvarðanir og láta orð Trump sem vind um eyru þjóta. AFP

Evrópusambandið virðist ætla í hart við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála sambandsins hefur hvatt fyrirtæki í Evrópu til að auka frekar viðskipti við Íran, heldur en hætta þeim, líkt og Trump vill að gert verði. The Guardian greinir frá.

Viðskiptabann Bandaríkjanna gagnvart Íran tók gildi í nótt og hefur Trump hótað þeim þjóðum sem ætla sér að vera áfram í viðskiptum við Íran. „Hver sá sem verður í viðskiptum við Íran verður EKKI í viðskiptum við Bandaríkin,“ skrifaði forsetinn á Twitter í morgun. Þykir hvatning frá æðstu yfirmönnum ESB til fyrirtækja innan sambandsins því vera nokkuð ögrandi í garð forsetans.

Evrópusambandið vill halda í fjölþjóðlegt samkomulag við Íran um afnám kjarnorkuvopna, sem gert var í árið 2015, en Bandaríkin drógu sig út úr samkomulaginu fyrr á þessu ári. Sagði Trump það vera hræðilegt og of einhliða. Eftir að Trump sendi frá sér yfirlýsinguna á Twitter í morgun hafa fyrirtæki í Evrópu verið hvött til að virða að vettugi orð hans.

Federica Mogherini, æðsti yfirmaður utanríkis- og öryggismála hjá ESB, segir þau ríki sem standa að samkomulaginu ætli að láta það halda og hvatti hún jafnframt fyrirtæki til að taka sína eigin ákvarðanir þegar kæmi að fjárfestingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert