Óttast að efnavopnum verði beitt

AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á föstudag til að ræða ástandið í Idlib-héraði í Sýrlandi, en Rússar hófu að varpa sprengjum á héraðið í morgun eftir þriggja vikna hlé. Idlib-hérað er síðasta vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi. AFP-fréttastofan greinir frá.

Bandaríkin, sem fara með formennsku í ráðinu, hafa kallað til fundar til að ræða möguleikann á því að stjórnarherinn, með aðstoð rússneskra hersveita, beiti efnavopnum gegn uppreisnarmönnum og almennum borgurum á svæðinu. Þetta segir Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjanna í ráðinu.

„Það sem er að gerast núna er að forsetinn biður Írana og Rússa að halda sig fjarri. Að þeir láti ekki koma til efnavopnaárásar á fólkið í Idlib. Ef efnavopnum verður beitt munu Bandaríkin bregðast við,“ segir Haley.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði stjórnvöld í Sýrlandi við því í gær að gera árás á héraðið með aðstoð Rússa og Íraka. Sagði hann að slík árás gæti hrundið af stað hörmungum sem ekki hefðu sést áður á þeim sjö árum sem stríðið í Sýrlandi hefur varað. Sameinuðu þjóðirnar, ásamt ýmsum hjálparsamtökum, höfðu áður varað við því sama.

mbl.is
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
ALLT MILLI HIMINS OG JARÐAR !!!!!!!!!!
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við BYKO. Mikið úrval af fallegum ...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...