Var greitt fyrir aðgang að stjórninni?

Donald og Melania Trump er hann var svarinn í embætti …
Donald og Melania Trump er hann var svarinn í embætti forseta Bandaríkjanna. AFP

Embætti saksóknara í New York hefur sent nefndinni sem sá um að skipuleggja innsetningarathöfn Donald Trumps Bandaríkjaforseta dómskvaðningu, en nefndin er nú til rannsóknar hjá embættinu.

„Okkur barst nýlega stefna varðandi skjölin,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar sem kveðst hafa hug á að sýna fullan samstarfsvilja með rannsókninni.

Skjölin sem um ræðir og óskað hefur verið eftir snúa að fjárstyrkjum og eyðslu nefndarinnar, að því er bandarísku dagblöðin Wall Street Journal og New York Times hafa greint frá.

Wall Street Journal greindi frá því í desember á síðasta ári að embætti alríkissaksóknara væri nú með til rannsóknar hvort nefndin hefði farið illa með hluta þeirra 107 milljóna dollara sem styrktaraðilar forsetans gáfu. Snýr rannsóknin m.a. að því hvort fjárgjafir hafi verið veittar gegn vilyrðum um pólitíska eftirgjöf, áhrif á skipan í ríkisstjórn eða fyrir aukinn aðgang að stjórninni.

Þá er saksóknaraembættið einnig sagt vera með til rannsóknar hvort einhverjar ólöglegar fjárgjafir hafi borist frá aðilum utan landsteinanna.

Talsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins neitaði að tjá sig við Reuters-fréttaveituna um málið.

Þó að lög um fjármögnun framboða séu nokkuð ströng, m.a. hversu háar upphæðir má gefa, er ekkert þak sett á það hversu mikið fé má styrkja innsetningarnefndir um og þá er þeim einnig heimilt að þiggja fjárgjafir frá fyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert