Líklega dregin eftir baðherbergisgólfinu

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan. AFP

Anne-Elisabeth Hagen var líklega dregin eftir gólfinu á baðherbergi á heimili Hagen-hjónanna kvöldið sem henni var rænt. Þetta hefur norska dagblaðið Verdens gang eftir norsku lögreglunni.

Anne-Elisabeth, sem er 68 ára göm­ul, hvarf af heim­ili sínu í sveit­ar­fé­lag­inu Lørenskog í Nor­egi að morgni 31. októ­ber á síðasta ári. Meint­ir mann­ræn­ingj­ar voru síðast í sam­bandi við fjöl­skyldu Hagen um miðjan janú­ar og krefjast þeir að fá lausn­ar­gjaldið greitt í raf­mynt og nem­ur krafa þeirra and­virði 1,2 millj­arða ís­lenskra króna. Fjöl­skyld­an neit­ar hins veg­ar að greiða nokkuð fái hún enga sönn­un þess að Hagen sé enn á lífi.

Eiginmaður hennar er Tom Hagen, einn af ríkustu mönnum Noregs, en eign­ir hans eru metn­ar á 1,7 millj­arða norskra króna, sem svar­ar til 23,7 millj­arða króna.

Norska lögreglan greinir frá því að líklega var Anne-Elisabeth Hagen …
Norska lögreglan greinir frá því að líklega var Anne-Elisabeth Hagen dregin eftir baðherbergisgólfinu á heimili sínu daginn sem henni var rænt. AFP

Einkennileg för á baðherbergisgólfinu

Lögreglan byggir kenningar sínar á niðurstöðum tæknideildar sem fann skýr ummerki um að Hagen hefði verið dregin eftir baðherbergisgólfinu. Förin þykja einkennileg og benda til að eitthvað óvenjulegt hafi gengið á. Að öðru leyti er ekki að finna nein ummerki um átök á heimili hjónanna. Ekki hefur áður verið greint frá átökum á baðherberginu en lögreglan hefur hingað til lítið sem ekkert gefið upp um rannsókn málsins annað en að hún hafi úr takmörkuðum vísbendingum að moða.

Tom Hagen tilkynnti um hvarf eiginkonunnar til lögreglu 31. október. Þann dag kom hann heim og fann hund hjónanna innilokaðan í herbergi og bréf frá mannræningjunum. Frá því greint var frá hvarfi Anne-Elisabeth í janúar hafa lögreglu borist mörg hundruð ábendingar. Enn er hins vegar ekki vitað hvort Anne-Elisabeth sé á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert