Neita afskiptum af kosningum

Stjórnvöld í Rússlandi ítrekuðu í dag að þau hafi ekki reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Þrátt fyrir að í skýrslu Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, komi fram að sterkar vísbendingar séu um að svo hafi verið.

Talsmaður ríkisstjórnar Rússlands, Dmitrí Peskov, segir að hann hafi ekki sjálfur séð skýrsluna en afstaða stjórnvalda sé skýr í þessu máli. Ekki hafi verið um afskipti að ræða af þeirra hálfu. 

Donald Trump segir að hann hafi verið fullkomlega hreinsaður af sök í rannsókninni sem beindist að því hvort Rússar hafi aðstoðað hann við að verða forseti. Samkvæmt skýrslunni var ekki um samsæri að ræða af hálfu forsetaframboðs Trumps og Rússa. Hins vegar væri óljóst hvort Trump hafi hindrað gang réttvísinnar. 

Demókratar hafa krafist þess að fá skýrsluna afhenta en aðeins hefur verið birt yfirlit yfir það helsta sem þar kemur fram. Það var William P. Barr, dóms­málaráðherra Banda­ríkj­anna, sem fór yfir helstu atriðin og sendi á þingheim. 

Fjölmiðlafulltrúi forsetaembættisins, Sarah Sanders, segist ekki geta ímyndað sér að Trump hafi nokkuð á móti því að afhenda demókrötum skýrsluna. Hann sjái enga meinbugi á því að bandaríska þjóðin fái frekari upplýsingar um það sem þar standi. Hann viti hvað hafi gerst og hvað ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert