„Sagði að við ættum að sprengja okkur“

Mynd af vígamönnum Ríkis íslams í Raqqa, er borgin var …
Mynd af vígamönnum Ríkis íslams í Raqqa, er borgin var eitt af höfuðvígjum samtakanna í Sýrlandi. AFP

„Basil Hassan bjó til sprengjuhleðslur og sprengjur sem átti að nota gegn óvininum. Hann kenndi mér að búa til sprengiefni og þvingaði mig til að aðstoða sig með nokkra dróna,“ hefur Danska ríkisútvarpið DR eftir Nidal Ali Ismail, jasídakonu sem Hassan hélt sem þræl.

Basil Hassan er Dani sem gekk til liðs við vígasamtökin Ríki íslams og segir DR þetta í fyrsta skipti sem þeim hafi tekist að fá frásögn frá einstaklingum sem höfðu kynni af Hassan innan kalífadæmisins. Ismail var þræll hjá Hassan á árabilinu 2014-2016.

Skipað í hjónaband

DR fjallar um Hassan á vef sínum í kvöld og ræðir við þrjár konur sem segja fréttastofunni frá sprengjugerð hans og að hann hafi oft borið á sér sprengjubelti. Tvær kvennanna, Ismail og Leyla Talou, sem báðar eru jasídar, voru neyddar til að gerast þrælar hans. Taoul var raunar einnig neydd í hjónaband með Hassan sem gekk undir nafninu Abu Hani Al Lubani innan kalífadæmisins.

Daninn Basil Hassan er talinn bera ábyrgð á drónaaðgerðum Ríkis …
Daninn Basil Hassan er talinn bera ábyrgð á drónaaðgerðum Ríkis íslams. Ljósmynd/Kaupmannahafnarlögreglan

Það var vorið 2017 sem sjaríadómstóll í Raqqa, sem þá var höfuðvígi Ríkis íslams í Sýrlandi, skipaði henni í hjónaband. „Þegar átökin færðust nær Raqqa sagði hann að við ættum að sprengja okkur í loft upp, ef við enduðum í þeirri stöðu að við gætum ekki flúið,“ rifjar Talou upp.

„Hann sagði að við skyldum taka eigið líf og verða píslarvottar og komast inn í Paradís. Á meðan hann talaði um það þá hugsaði ég bara um að komast heim til fjölskyldu minnar.“

Duldi alltaf andlit sitt

Hin marokkóska Islam Mitat gekk sjálfviljug til liðs við Ríki íslams vorið 2015 en flúði svo tveimur árum síðar. Hún staðfestir að Hassan hafi stundað sprengjugerð og verið eftirlýstur fyrir hryðjuverk.

„Maðurinn minn sagði mér að Abu Hani [nafnið sem Hassan gekk undir] væri eftirlýstur og á hryðjuverkalistanum. Hann bjó til sprengjur,“ segir Mitat og kveður hann hafa verið tíðan gest á heimili þeirra. „Í hvert skipti sem hann kom var hann í ólíkum fötum. Hann duldi alltaf andlit sitt. Stundum var hann klæddur eins og Sýrlendingur og í önnur skipti var hann með gleraugu. Hann breytti oft um útlit og flutti oft milli staða.“

Talinn hafa reynt að myrða Hedegaard

DR hefur eftir dönsku lögreglunni að það hafi verið Hassan sem reyndi í febrúar 2013 að myrða sagnfræðingin Lars Hedegaard sem hefur verið gagnrýninn í garð íslamstrúar.  Frá þeim tíma hefur Hassan ekki dvalið í Danmörku og telur danska öryggislögreglan að hann hafi gegnt mikilvægu hlutverki hjá vígasamtökunum.

Árið 2016 rataði hann á lista bandarískra yfirvalda, m.a. af því að þau töldu hann bera ábyrgð á drónaaðgerðum Ríkis íslams. Frá því haustið 2018 hefur hann líka verið til rannsóknar hjá dönskum yfirvöldum vegna hryðjuverkamáls, en danska lögreglan telur, að að minnsta kosti fimm einstaklinga þar í landi hafa keypt dróna og síðan sent þá til liðsmanna Ríkis íslams um árabil. Fimmmenningarnir hafna ásökununum.

DR segir bæði dönsku öryggislögregluna og öryggislögreglu danska hersins vera kunnugt um að Hassan hafi haldið þræla. Tilkynnt var árið 2017 að Hassan hefði verið drepinn, en þar sem dauði hans hefur enn í dag ekki verið staðfestur segir DR dönsk yfirvöld vinna út frá þeim forsendum að hann kunni enn að vera á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka