Útlit fyrir óbreytt stjórnmálaástand

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ásamt eiginkonu sinni Söru, í höfuðstöðvum …
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ásamt eiginkonu sinni Söru, í höfuðstöðvum Likud-flokksins í Tel Aviv í gær. Kosningasigur flokksins, þrátt fyr­ir spill­ing­arásak­an­ir, hef­ur nán­ast tryggt hon­um að verða sá for­sæt­is­ráðherra sem hef­ur setið lengst á stóli í Ísra­el. AFP

Þegar 97% atkvæða í þingkosningunum í Ísrael hafa verið talin er útlit fyrir að óbreytt ástand verði í ísraelskum stjórnmálum þar sem allt bendir til þess að Benjam­in Net­anya­hu sé bú­inn að tryggja sér for­sæt­is­ráðherra­stól­inn fimmta kjör­tíma­bilið í röð.

Likud, flokkur Netanyahu, ásamt öðrum hægriflokkum hafa tryggt sér 65 sæti af 120 á ísraelska þinginu og búast má við því að forseti landsins, Reuven Rivlin, veiti Netanyahu umboð til stjórnarmyndunar. Netanyahu hefur þá 28 daga til að mynda ríkisstjórn, með möguleika á tveggja vikna framlengingu á þeim fresti.

Bláhvíta hreyfingin, undir forystu aðalandstæðings Netanyahu, Benny Gantz, fyrrverandi herforingja, hlaut 35 þingsæti og því gætu þeir sameinað krafta sína og myndað ríkisstjórn, en það verður að teljast ólíkleg niðurstaða, en búist er við því að Gantz verði leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Réttarhöld vegna ásakana um spillingu hefjast brátt 

Verði Netanyahu áfram forsætisráðherra verður hann fyrsti forsætisráðherrann sem á yfir höfði sér lögsókn. Ísraelska lögreglan undirbýr nú lögsókn gegn Netanyahu í tveimur málum fyrir mútur og trúnaðarbresti. Ríkissaksóknari fullyrðir að réttarhöld hefjist á næstu vikum, óháð því hvort Netanyahu verði áfram forsætisráðherra eða ekki.

Búist er við því að talningu allra atkvæða verði lokið síðdegis, en meðal annars á eftir að telja atkvæði frá hermönnum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert