Kvæntist lífverði sínum

Konungur Taílands hefur gengið að eiga konu sem starfaði sem lífvörður hans. Þetta er fjórða hjónaband hans en hann á sjö börn með fyrri eiginkonum. Tilkynning um hjónaband kom öllum að óvörum. 

Maha Vajiralongkorn mun á laugardag formlega verða settur inn í embætti konungs landsins en hann hefur gegnt því frá fráfalli föður hans árið 2016. 

Í yfirlýsingu frá hirðinni segir að Vajiralongkorn konungur hafi ákveðið að upphefja Suthida sem hafi hingað til verið konungleg fylgdarmey hans í embætti drottningar og hér eftir verði hún Suthida drottning og verði formlega hluti af konungsfjölskyldunni með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Konungur Taílands, Maha Vajiralongkorn gekk að eiga Suthida Vajiralongkorn na …
Konungur Taílands, Maha Vajiralongkorn gekk að eiga Suthida Vajiralongkorn na Ayudhya í gær. AFP

Suthida drottning og Vajiralongkorn konungur hafa lengi verið par og hafa ekkert farið leynt með samband sitt þrátt fyrir að aldrei áður hafi það verið opinberlega viðurkennt.

Sýndar voru myndir í ríkissjónvarpi Taílands af brúðkaupinu og sést konungurinn ausa vatni yfir drottninguna. Þau rituðu síðan undir yfirlýsingu um hjónaband.

Árið 2014 skipaði Vajiralongkorn Suthida Tidjai, sem er fyrrverandi flugfreyja hjá Thai Airways, sem aðstoðarforingja lífvarðarsveitar krónprinsins en árið 2016, þegar hann tók við sem konungur, gerði hann hana að herforingja í her landsins. 

Frétt BBC

AFP
mbl.is