Kraftmeiri sprengjur nýlunda í Malmö

Lögreglumenn standa vörð við aðallestarstöðina í Malmö í fyrradag eftir …
Lögreglumenn standa vörð við aðallestarstöðina í Malmö í fyrradag eftir að maður hótaði að sprengja þar sprengju. AFP

Sprengjuefnið sem notað hefur verið í árásum í Malmö í Svíþjóð að undanförnu kemur frá stórum birgj, sem glæpagengi virðast hafa komist yfir og nota nú til að hræða veitingahúsaeigendur og gesti. „Við sjáum að eyðileggingarmáttur sprenginganna hefur orðið meiri en áður, segir Andy Roberts, lögreglustjóri í Norður-Malmö í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Áður fyrr voru handsprengjur, og sprengjuefni ætlað hernum, algengust í vopnabúri glæpagengja, en nú virðist sem þau hafi komið höndum yfir sprengjuefni frá stærri birgja. 17 sprengingar hafa orðið í Malmö það sem af er ári, og tjón á mannvirkjum verið umtalsvert þótt ekkert manntjón hafi blessunarlega orðið í nýlegum sprengingum.

Oft getur lítil sprengja valdið stóru tjóni, segir Roberts, og bendir á að þegar þeim sé komið fyrir í nálægð við hús geti rúður brotnað og ytra byrði húsa farið illa. Tólf ára stelpa særðist í apríl er sprengja sprakk við Nóbeltorgið í miðborg Malmö með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu og glerbrot hæfðu hana. 

Roberts segir sprengjunum ætlað að senda skilaboð. Þegar þær eru sprengdar við íbúðarhúsnæði sé þeim oftar en ekki beint að tilteknum íbúa hússins sem genginu sé í nöp við. Sprengingar við veitingastaði og næturklúbba komi til vegna þess að einhverjum úr hópnum hafi verið meinaður aðgangur að staðnum, eða þá að gengið telji að eigandinn hafi gert eitthvað á þeirra hlut.

mbl.is