Opið til hægri og vinstri í Danmörku

Mette Frederiksen hefur umboð til stjórnarmyndunar í Danmörku eftir kosningasigur ...
Mette Frederiksen hefur umboð til stjórnarmyndunar í Danmörku eftir kosningasigur Sósíaldemókrata í síðustu viku. AFP

Flóknar samningaviðræður vinstriflokka eru framundan í Danmörku eftir kosningar þar í landi 5. júní. Vinstriflokkar fengu meirihluta þingmanna og hefur Mette Frederiksen, formanni Sósíaldemókrata, verið veitt stjórnarmyndunarumboð.

Mette hefur ítrekað gefið það út fyrir kosningar að henni þyki ákjósanlegast að mynda hreina minnihlutastjórn Sósíaldemókrata með stuðningi annarra vinstriflokka, en ekki er víst að henni verði að ósk sinni.

Flokkurinn á nú í viðræðum við miðjuflokkinn Radikale Venstre, Einingarlistann (Enhedslisten) og Sósíalíska þjóðarflokkinn, en þeir tveir síðastnefndu eru lengst til vinstri af flokkum á danska þinginu.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, gaf út bók ...
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, gaf út bók í miðri kosningabaráttu, Befrielsens øjeblik. Þar opnar hann meðal annars á samstarf við Sósíaldemókrata. „Ef enginn opnar eru dyrnar lokaðar, í þessari bók opna ég í hálfa gátt.“ Ljósmynd/Berlingske

Stefna flokkanna þriggja í innflytjendamálum er töluvert frábrugðin nýupptekinni stefnu Jafnaðarmanna, sem er meira í átt við Danska þjóðarflokkinn, og hefur sá málaflokkur valdið vandræðum í viðræðunum.

Þær viðræður hafa þó verið lagðar til hliðar í bili og samtal um efnahagsmál tekið upp. Þar skilur einnig á milli flokkanna. Enhedslistinn hefur sagst vilja aukna áherslu á umhverfisvæn verkefni og ný útgjöld til velferðarmála. Þau skuli borga með auknum álögum á þá sem mest hafa milli handanna.

Miðjuflokkurinn Radikale Venstre, flokkur Margrethe Vestager, samkeppnisstjóra ESB, hefur þó lýst efasemdum um þær tillögur. Borgaraleg efnahagsstjórn eigi að vera stefnan og hvorki vandamál hins opinbera né einkageirans verði leyst með skattahækkunum.

Viðræðuhlé stendur nú yfir vegna þjóðfundar, Folkemøde, sem stendur yfir fram á sunnudag á eyjunni Borgundarhólmi þangað sem allir stjórnmálaleiðtogar eru mættir ásamt þeim sem vilja telja sig málsmetandi í dönskum stjórnmálum.

Mette Frederiksen hefur sagt að hún sé vongóð um að flokkarnir nái saman fyrir rest og að það væri gremjulegt tækist flokkum með jafntraustan þingmeirihluta ekki að mynda ríkisstjórn. Það væri ekki í samræmi við niðurstöður kosninganna.

Venstre bíður eftir kallinu

Gangi það ekki eftir hefur Mette þó þann kost að líta til hægri, þar sem hægriflokkurinn Venstre, flokkur Larsl Løkke forsætisráðherra, bíður eftir kallinu. Løkke hefur ýjað að því að hann væri til í samstarf „yfir miðjuna“ sem tæpast má skilja öðruvísi en ákall til Sósíaldemókrata um að mynda breiða stjórn flokkanna tveggja. Sú stjórn hefði 94 þingmenn af 179 á danska þinginu (séu þrír af þeim fjórum þingmönnum Grænlendinga og Færeyinga sem stilla sér upp við hlið dönsku systurflokka sinna taldir með). Er það einum manni meira en bandalag vinstriflokkanna, og því ljóst að þingstyrkurinn yrði sá sami, en mögulega gengi samstarfið betur.

Stóru flokkunum tveimur, Sósíaldemókrötum og Venstre, hefur einmitt verið legið töluert á hálsi í kosningabaráttunni fyrir að hafa nálgast hvor annan allverulega og spyrja sumir sig raunar hvað skilur þar á milli.

mbl.is
Tæki fyrir traktorinn
Við erum með jarðtætara, hagasláttuvélar, kurlara og allt mögulegt fyrir traktor...
Piaggo Vespa LX125
Piaggio Vespa LX125 Himinblá, árg 2008 Ekin 12.600 km kr: 190.000 Upplýsinga...
Einstakt sumartilboð - 14,44 fm Garðhús - kr. 375.900,-
Naust er bjálkahús úr 34mm bjálka með tvöfaldri nót. Húsið er 3,8m x 3,8m og er...
Kolaportið sjávarmegin-plötuportið.
Mikið úrval af ýmsum gömlum plötum Low, Pinups, Diamond Dogs, Aladin Sane, o.f...