Gera grín að Trump

Ayatollah Ali Khameini, leiðtogi Írans, við minningarathöfn sem haldin var …
Ayatollah Ali Khameini, leiðtogi Írans, við minningarathöfn sem haldin var til að minnas þess að 30 ár eru liðin frá andláti Ayatollah Ruholah Khomeini. Donald Trump er sakaður um að rugla saman Khameini og Khomeini. AFP

Íranar hafa á samfélagsmiðlum gert grín að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að hafa hótað framliðnum leiðtoga landsins. Er Trump sakaður um að ruglast á núverandi leiðtoga og þeim sem lést fyrir 30 árum.

Fram kom í tilkynningu forsetans í gær að „eignir Ayatollah Khomeini og embætti hans munu ekki verða undanþegin þvingunaraðgerðum.“ Þá tilkynnti hann um að Bandaríkin myndu herða þvingunaraðgerðir sínar gagnvart Íran, sérstaklega leiðtogum og æðstu embættismönnum landsins.

Stofnandi klerkaveldisins í Íran, Ayatollah Ruhollah Khomeini, lést hins vegar árið 1989 og hefur Ayatollah Ali Khameini verið leiðtogi landsins síðan. Er aðeins einn bókstafur sem skilur eftirnöfnin að.

„Trump veit ekki að Ayatollah Khomeini er dáinn og að Ayatollah Khameini sé leiðtogi Írans,“ tísti Sara Masoumi, blaðamaður Íranska blaðsins Etemad.

„Hefur þessi sjálfhverfi maður verið að bíða eftir símtali frá framliðnum manni?“ tísti annar á Twitter, en Trump hefur sagst vilja ræða við Íran í gegnum síma.

Einn Twitter-notandi taldi Trump hafa verið að hefna sín fyrir að Khameini hafi í ræðu sinni óvart sagt Ronald í stað Donald um forsetann.

mbl.is