Vilja að Mueller gæði skýrsluna lífi

Robert Mueller hefur lýst því yfir að hann hafi engan …
Robert Mueller hefur lýst því yfir að hann hafi engan áhuga á að bera vitni fyrir þinginu. Skýrslan sé sinn vitnisburður. AFP

Jerrold Nadler, formaður dómsmálanefndar Bandaríkjaþings, segist telja „áþreifanlegar sannanir“ fyrir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi gerst sekur um alvarlega glæpi og minni háttar brot. Þess vegna ætli hann að fá Robert Mueller, sérstakan saksóknara FBI, til að greina frá þeim staðreyndum í yfirheyrslu hjá þinginu á miðvikudag.

„Skýrslan sýnir áþreifanlegar sannannir þess að forsetinn er sekur um alvarlega glæpi og minni háttar afbrot og við verðum að láta Mueller kynna þær staðreyndir fyrir bandarískum almenningi og sjá svo hvað gerist í framhaldinu,“ sagði Nadler í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina í gærkvöldi.

„Ríkisstjórnin verður að svara fyrir gjörðir sínar og enginn forseti er ofar lögum.“

Þingið þarf sönnun ætli það að ákæra

Reuters segir þessi ummæli Nadlers mikilvæg í ljósi þess að sönnun um slíka glæpi sé nauðsyn ætli demókratar sér að hefja ákæruferli gegn forsetanum fyrir embættisbrot.

Mueller var sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI í rannsókn á afskiptum rússneskra ráðamanna af forsetakosningunum  2016 og meintum tengslum framboðs Trumps við þá. Mueller skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðuneytisins í mars og mánuði síðar birti ráðuneytið ritskoðaða útgáfu skýrslunnar.  

Bæði dómsmála- og njósnanefnd Bandaríkjaþings munu yfirheyra Mueller á miðvikudag og verða yfirheyrslurnar sendar út í beinni. Segir Reuters búist við að þingmenn demókrata í nefndunum muni reyna að fá Mueller í vitnisburði sínum til að nefna ákveðin dæmi um brot forsetans.

Vonast til að lýsingar Muellers auki stuðning við ákærukröfu

Með því að fá Mueller til að lýsa því hvernig Trump reyndi að hindra rannsóknina á framboði sínu vonast demókratar til þess að auka stuðning við áframhaldandi rannsókn á Trump og í framhaldinu möguleg ákærum.

Í skýrslunni er nefndur fjöldi dæma um samskipti milli rússneskra embættismanna og starfsfólks framboðs Trumps, en engar sannanir fundust um samsæri. 10 dæmi voru þá nefnd í skýrslunni um það hvernig Trump hafi reynt að hindra rannsóknina. Þar er þó ekki komist að niðurstöðu um það hvort forsetinn hafi gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar. Dómsmálaráðherrann William Barr úrskurðaði síðar að hann hefði ekki séð nægar sannanir um slíkt til að leggja fram slíka kæru.

Fá demókratar Mueller til að tala?

Reuters segir hins vegar óvíst hvort demókratar fái Mueller til að ræða framgöngu Trumps. Mueller hafi þegar gefið það út að vilji hans standi ekki til þess að bera vitni fyrir þinginu. Skýrslan sé hans vitnisburður. Þá er Mueller enn fremur þekktur fyrir að vera orðvar og fyrir að halda svörum sínum takmörkuðum við eitt orð er hann beri vitni.

Adam Schiff,  formaður njósnanefndar þingsins, sagði í samtali við CBS-sjónvarpsstöðina að markmiðið með yfirheyrslunum sé að tryggja að þeir Bandaríkjamenn sem hafa ekki lesið skýrsluna geti hlustað á niðurstöður hennar.

„Flestir Bandaríkjamenn lifa annasömu lífi og hafa ekki haft tækifæri til að lesa skýrsluna, sem er ansi þurr saksóknaravinnulesning. Við viljum að Bob Mueller gæði hana lífi [...] Þetta eru ansi fordæmandi staðreyndir,“ sagði Schiff.

mbl.is