Leiðtogar á Amazon-svæðinu funda

Bolsonaro fundaði með Sebastian Pinera, forseta Síle, í dag.
Bolsonaro fundaði með Sebastian Pinera, forseta Síle, í dag. AFP

Leiðtogar þeirra ríkja sem Amazon-regnskógurinn nær til, utan Venesúela, ætla að koma saman 6. september til að ræða málefni regnskógarins og skógareldana sem í honum geysa.

Þetta staðfesti Jair Bolsonaro forseti við fjölmiðla eftir fund hans með Sebastian Pinera, forseta Síle, en hann hefur þegið boð Síle um aðstoð og fjórar flugvélar sem ætlað er að nota til baráttunnar gegn skógareldunum sem eru þeir mestu í landinu frá 2010.

Bolsonaro hefur enn ekki ákveðið að þiggja fjármagn frá G7-ríkjunum vegna eldanna, en hann og Emmanuel Macron hafa átt í miklum deilum vegna ummæla þess síðarnefnda um að Bolsonero hefði logið um umhverfisstefnu Brasilíu á fundi G20-ríkjanna í Japan í júní.

Ríkisstjórar ríkja Brasilíu sem verst hafa orðið úti í skógareldunum hafa kallað eftir því að Bolsonaro taki við fjármagninu, sem hljóðar upp á 22 milljónir bandaríkjadala.

Frétt BBC

mbl.is