Skilaði eigandanum troðfullu veski

Lögregluþjónn í Róm. Heiðarlegur götusali skilaði á dögunum kaupsýslumanni veski …
Lögregluþjónn í Róm. Heiðarlegur götusali skilaði á dögunum kaupsýslumanni veski sem innihélt um 2.000 evrur. AFP

Mossan Rasal, 23 ára gamall götusali frá Bangladess, hafnaði fundarlaunum eftir að hafa skilað eiganda veski sem hann hafði glatað í Róm. Í veskinu voru um 2.000 evrur í seðlum, jafngildi nær 300 þúsunda íslenskra króna. 

Rasal gekk fram á veskið á gangstétt í höfuðborginni á föstudag og í kjölfarið hafði hann samband við eigandann sem þakkaði honum fyrir að hafa sýnt af sér heiðarlega framkomu. „Mér fannst ég ekki gera neitt sérstakt. Ég átti ekki þessa peninga,“ sagði Rasal sem vissi ekki hve há upphæðin í veskinu var. „Ég taldi ekki peningana, heldur fór beinustu leið á lögreglustöðina,“ sagði hann.

„Þetta snýst um að vera heiðarlegur. Það kenndi fjölskylda mín mér,“ sagði Rasal sem hefur rekið lítinn söluvagn, en hann hefur búið í Róm í sjö ár. Hann kvaðst myndu verða ánægður ef kaupsýslumaðurinn sem veskið tilheyrði verslaði við hann í götuvagninum og yrði jafnvel fastakúnni.

mbl.is