Tyrkir herða sókn sína í Sýrlandi

Tyrkneskir hermenn og bandamenn þeirra fylgjast með sókninni gegn Kúrdum …
Tyrkneskir hermenn og bandamenn þeirra fylgjast með sókninni gegn Kúrdum í Sýrlandi. AFP

Tyrkneskar hersveitir og bandamenn þeirra í Sýrlandi hafa hert sókn sína gegn Kúrdum í norðurhluta landsins og komust meðal annars inn í Ras al-Ain, hernaðarlega mikilvægan landamærabæ, í dag að því er segir í frétt AFP-fréttaveitunnar.

Hafa ráðamenn í Tyrklandi haft hótanir Bandaríkjamanna um refsiaðgerðir og mótmæli annarra ríkja að engu. Stjórnvöld í Ankara hafa fagnað hertöku Ras al-Ain en Kúrdar segja að tyrkneskir hermenn hafi komist inn í bæinn en ekki tekið hann.

Fjórir dagar eru síðan sókn Tyrkja hófst. Tugir óbreyttra borgara hafa látist í kjölfarið. Mannréttindasamtök fullyrða að vígamenn hliðhollir Tyrkjum hafi tekið af lífi að minnsta kosti níu óbreytta borgara í dag skammt frá bænum Tal Abyad.

Stjórnvöld í Tyrklandi segja fjóra tyrkneska hermenn hafa fallið í átökunum en á þriðja tug í liði Kúrda hafa látið lífið. Óbreyttir borgarar hafa bæði látist í Tyrklandi vegna stórskotaárása Kúrda og í Sýrlandi vegna loftárása og stórskotaárása Tyrkja.

AFP

Tyrkneski herinn hefur hrakið hersveitir Kúrda frá 27 þorpum frá því að sókn hans hófst á miðvikudaginn. Markmið Tyrkja er að hertaka bæði Ras al-Ain og bæinn Tal Abyad og hafa fyrir vikið miklar loftárásir og stórskotaárásir verðir gerðar á bæina.

Ráðamenn í Ankara segja markmið þeirra að koma á öryggissvæði sem verði undir stjórn arabískra bandamanna þeirra í Sýrlandi hvar hægt verði að koma 3,6 milljónum sýrlenskra flóttamanna fyrir. Kúrdar segja markmiðið að hrekja Kúrda af svæðinu.

Hernaðaraðgerðir Tyrkja hafa leitt til þess að um 100 þúsund manns hafa lagt á flótta að mati Sameinuðu þjóðanna. Vegir á svæðinu eru fullir af flóttafólki. Mannréttindasamtök segja markmið Tyrkja að koma í veg fyrir að flóttafólk fari til Tyrklands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert