Trump náðaði „Brauð“ og „Smjör“

Donald Trump Bandaríkjaforseta tókst að blanda rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum hans inn í árlega athöfn í Hvíta húsinu þar sem kalkúnn er náðaður í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar. 

Kalkúnarnir Brauð og Smjör (e. Bread and Butter) hlutu báðir náð og verða fluttir til Virginíu þar sem þeir munu dvelja í góðu yfirlæti. 

Trump sagðist vita með vissu að kalkúnarnir væru þjálfaðir í að halda ró sinni, sem væri afar góður kostur þar sem þeir hafi verið boðaðir í vitnaleiðslu í „kjallaranum hjá Adam Schiff á fimmtudaginn“. „Þetta er satt,“ sagði Trump og uppskar hlátur viðstaddra. Schiff er þingmaður demókrata og formaður njósna­nefnd­ar fulltrúadeildar þingsins sem fer fyrir rannsókn á meintum embættisbrotum Trump. 

Dómsmálanefnd Bandaríkjanna hefur boðið Trump að vera viðstaddur yfirheyrslur vitna sem kölluð verða fyrir nefndina 4. desember og mun honum gefast kostur á að leggja spurningar fyrir vitnin, sem eru sérfræðingar í lögum, sér í lagi stjórnarskrárlögum og stjórnsýslulögum. 

Donald Trump náðaði kalkúninn Brauð í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar við hátíðlega …
Donald Trump náðaði kalkúninn Brauð í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar við hátíðlega athöfn í garði Hvíta hússins. AFP

Segir Trump að mæta eða hætta að kvarta

Vitnaleiðslunum í næstu viku er ætlað að úrskurða hvort gjörðir Trumps geti flokkast sem alvarleg brot í embætti. Til rannsóknar eru embætt­is­verk­ for­set­ans vegna þrýst­ings sem hann er tal­inn hafa beitt úkraínsk stjórn­völd til að taka Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta og for­setafram­bjóðanda, til rann­sókn­ar.

Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndarinnar, segir að Trump geti annað hvort mætt eða „hætt að kvarta undan ferlinu“. „Ég vona að hann ákveði að taka þátt í rannsókninni, annað hvort í eigin persónu eða í gegnum lögmenn sína, líkt og aðrir forsetar hafa gert á undan honum,“ segir Nadler. 

Ólíklegt verður að teljast að Trump mæti í eigin persónu. Hann hefur boðað þátttöku sína á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fer fram í London sama dag. 

Kalkúnninn Smjör var náðaður af Donald Trump.
Kalkúnninn Smjör var náðaður af Donald Trump. AFP
mbl.is