Tveir telja sig þingforseta

Luis Perra er annar þeirra sem hefur lýst sig þingforseta …
Luis Perra er annar þeirra sem hefur lýst sig þingforseta Venesúela. AFP

Tveir þingmenn Venesúela hafa lýst sig forseta þings landsins eftir róstusaman dag í stjórnmálum landsins í gær, sunnudag. 

Þeir sem telja sig vera þingforseta eru Juan Guaidó, þingforseti og yfirlýstur forseti landsins með stuðningi Bandaríkjastjórnar, og stjórnmálaandstæðingur hans, Luis Parra.

Kosið var um nýjan þingforseta í gær og sóttist Guaido eftir endurkjöri. Hann segir hins vegar að venesúelska lögreglan hafi meinað honum inngöngu í þinghúsið. Samkvæmt BBC sýna ljósmyndir hvernig Guaido reyndi að klifra yfir járngirðingu til að komast inn í þinghúsið.

Juan Guaidó reynir að klífa járngrindverk til að komast í …
Juan Guaidó reynir að klífa járngrindverk til að komast í þinghúsið. AFP

Guaido var forseti þingsins þegar hann véfengdi endurkjör Nicolas Maduro og lýsti sig starfandi forseta landsins í janúar á síðasta ári. Hann naut fljótlega stuðnings hátt í 60 landa, þeirra á meðal Bandaríkjanna og Bretlands. 

Guaido hefur hins vegar átt undir högg að sækja vegna þess hve illa gengur að hrekja Maduro úr forsetastóli og hefur hann átt í fullu fangi með að halda samstöðu innan stjórnarandstöðunnar. Maduro situr sem fastast þrátt fyrir alþjóðlegan þrýsting, en hann á það tryggð venesúelska hersins að þakka.

Maduro var fljótur að styðja tilkall Perra til þingforsetasætis og hafa venesúelskar sjónvarpsstöðvar tilkynnt Perra sem nýjan forseta, en Bandaríkin, Evrópusambandið og nokkur nágrannaríki Venesúela í Suður-Ameríku hafa fordæmt framkvæmd þingforsetakosningarinnar.

mbl.is