Skóþurrkari kostaði þær lífið

Mæðgurnar fjórar sem létust í kjölfar brunans í Bergen 4. …
Mæðgurnar fjórar sem létust í kjölfar brunans í Bergen 4. janúar, þess mannskæðasta þar í borg síðan 1979. F.v.: Malak Hauro, 41 árs, Norjan Othman, 14 ára, Rouhlat Othman, níu ára, og Norjin Othman, sjö ára. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lögreglan í Bergen greindi í gær frá þeirri rannsóknarniðurstöðu að upptök mannskæðasta eldsvoða þar í borg síðan 1979, sem kostaði móður og þrjár ungar dætur hennar lífið, hefði verið skóþurrkari í þvottahúsi á fyrstu hæð hússins, rafknúinn hitablásari sem blæs heitu lofti inn í blautan skófatnað og þurrkar hann.

Eldurinn kviknaði að morgni laugardagsins 4. janúar og lést fyrsta stúlkan, níu ára gömul, að kvöldi þess dags, móðirin og elsta stúlkan, sem var 14 ára, létust aðfaranótt þriðjudagsins 7. janúar og yngsta stúlkan, sjö ára gömul, síðdegis þann sama dag. Rúmlega 700 manns sóttu útför mæðgnanna í íþróttahöllinni í Bergen á mánudaginn í síðustu viku eins og mbl.is greindi frá.

„Við höfum nú nokkurn veginn fullvissað okkur um að orsök eldsvoðans er bilun í skóþurrkara í þvottahúsi á fyrstu hæð hússins,“ sagði Torgils Lutro, yfirlögregluþjónn við syðri lögreglustöðina í Bergen, við norska ríkisútvarpið NRK í gærmorgun.

Tæknideild lögreglunnar í Bergen naut aðstoðar rannsóknarlögreglunnar Kripos við rannsókn á eldsupptökum og vinnur nú áfram að því með Kripos og Almannavarnastofnun Noregs (n. Direktoratet for samfunnssikkerhet og beredskap) að slá því föstu hvað hafi valdið því að eldur kviknaði út frá tækinu. Lögregla vill ekki greina frá vörumerki og tegund skóþurrkarans fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir.

„Almennt er rétt að huga vel að öllum rafmagnstækjum, ekki síst þeim sem gefa frá sér hita,“ svaraði Lutro, inntur eftir því hvort almenningur ætti að vera á varðbergi gagnvart skóþurrkurum sínum þar til vitað er hvað olli brunanum.

Lögregla hefur farið vandlega yfir vettvang brunans og yfirheyrt öll möguleg vitni, þar á meðal föður stúlknanna og eldri bróður þeirra, 18 ára gamlan, en þeir feðgar sváfu í íbúð á annarri hæð hússins, mæðgurnar sem létust á þriðju hæð. Feðgarnir komust út úr íbúðinni af eigin rammleik en yngri bróðir, 15 ára gamall, var ekki heima. 

Björgvinjarbúar eru í sárum eftir harmleikinn eins og mbl.is greindi frá í fyrri fréttum, mörg hundruð manns lögðu leið sína á Haukeland-sjúkrahúsið á meðan mæðgurnar börðust þar fyrir lífi sínu og var samverustund haldin sunnudagskvöldið eftir brunann auk þess sem áfallahjálparteymi sveitarfélagsins heimsóttu tvo grunnskóla sem stúlkurnar sóttu og ræddu við nemendur og starfsfólk á mánudeginum.

Skólastjóri skóla elstu systurinnar hélt ræðu við útförina auk þess sem fjölmargir samnemendur kvöddu sér hljóðs en öll kennsla var felld niður í báðum skólunum á mánudaginn í síðustu viku svo skólasystkini systranna gætu sótt athöfnina.

NRK

NRK II

Dagbladet

Nettavisen

mbl.is