Wuhan — fyrir og eftir kórónuveiruna

Dans á götum úti og iðandi mannlíf við vinsæl kennileiti borgarinnar Wuhan heyrir nú sögunni til, að minnsta kosti um tíma. 

Frá því að kórónuveiran sem veldur COVID-19-sjúkdómnum greindist í borginni í lok síðasta árs hefur borgin, sem eitt sinn iðaði af mannlífi og menningu, umbreyst í draugaborg.

Ell­efu millj­ón­ir manns búa í Wu­h­an, sem er sjö­unda stærsta borg Kína. Borg­in er ein mikilvæg­asta iðnaðar­borg lands­ins og hvergi í land­inu eru fleiri há­skóla­nem­ar en í Wu­h­an. Borg­in er einnig mik­il­væg sam­göngumiðstöð en tutt­ugu millj­ón­ir farþega fara um Wu­h­an-flug­völl­inn ár­lega.  

Eitt sinn var dansað á götum borgarinnar en nú eru …
Eitt sinn var dansað á götum borgarinnar en nú eru heilbrigðisstarfsmenn nánast þeir einu sem sjást á götum úti. AFP

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá svipmyndir frá borginni, annars vegar frá september í fyrra og hins vegar frá því í janúar. Umbreytingin á rúmum fjórum mánuðum er sláandi.

Alls hafa 3.198 lát­ist af völd­um veirunn­ar og rúm­lega 80.000 smit­ast. Veiran á upptök sín á fiskmarkaði í Wuhan sem er í Hubei-héraði í Kína. Dauðsföllum í Kína af völdum veirunnar hefur nú farið fækkandi þrjá daga í röð, en 38 létust á meginlandi Kína í gær.

Sam­kvæmt frétt AFP virðast strang­ar aðgerðir kín­verskra stjórn­valda varðandi sótt­kví skila sér í því að dauðsföll vegna veirunn­ar hafa ekki verið færri í Kína síðan í janú­ar.

Það er tómlegt um að litast í Wuhan í Kína.
Það er tómlegt um að litast í Wuhan í Kína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert