Ljósin slokkna smátt og smátt

AFP

Verulegar hömlur hafa verið lagðar á ferðir Bandaríkjamanna vegna kórónuveirunnar og yfirvöld í Ohio hafa ákveðið að aflýsa forvali demókrata í ríkinu af heilbrigðisástæðum. Forvalið átti að fara fram í dag.

AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur varað þegna sína við því að hættuástand geti varað fram á sumar og jafnvel lengur.

Bæði New Jersey og San Francisco hafa sett á útgöngubann og Trump hefur beðið þegna sína um að forðast að koma saman í hópum stærri en tíu manns. Trump hefur í fyrsta skipti talað um erfiðleikana í efnahagslífinu og að efnahagslægð sé jafnvel fram undan. Þetta kom fram í máli hans á sama tíma og upplýst var um að yfir sjö þúsund manns hafi látist af völdum kórónuveirunnar og að Wall Street hafi upplifað versta dag fjármálalífs Bandaríkjanna frá því árið 1987. Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum féllu um tæp 13% í gær.

AFP

Skellt í lás klukkan 20

Hvað varðar lokanir fylgja Bandaríkjamenn í humátt á eftir ríkjum Evrópu. Meðal annars hefur skólum verið lokað, opinberum byggingum, kvikmyndahúsum, veitingastöðum og börum. Trump segir að hann sjái ekki betur en að bandaríska þjóðin standi sig vel en talað sé um að neyðarástandið vari fram í júlí eða ágúst. Hann segir að það sé sennilega rétt mat. 

AFP

Í gær tilkynntu kanadísk yfirvöld um að þau væru að loka landamærum sínum fyrir erlendum ferðamönnum og ríkisstjóri New Jersey, Phil Murphy, segir að hömlur hafi verið lagðar á ferðir fólks um ríkið. Loka þurfi öllum verslunum fyrir utan matvöru og lyfsölu og afþreyingu klukkan 20 á hverju kvöldi. Verulegar hömlur séu lagðar á útiveru fólks eftir klukkan 20 og þangað til klukkan 5 að morgni. Óvíst er hversu lengi útgöngubannið varir. Svipaða sögu er að segja af yfirvöldum í San Francisco. 

AFP

Í Púertó Ríkó hefur verið sett á útgöngubann frá klukkan 21 til 5 að morgni, þar hefur verslunarmiðstöðvum, kvikmyndahúsum, heilsuræktarstöðvum og börum verið lokað.

Talsmenn bandaríska forsetaembættisins hafa neitað því að Trump íhugi að setja á allsherjarútgöngubann en forsetinn segir sjálfur að hann muni jafnvel biðja herinn um að koma að byggingu bráðabirgða-sjúkrahúsa.

AFP

Trump segir óþarft að aflýsa kosningum vegna kórónuveirunnar en ríkisstjóri Ohio hefur þrátt fyrir það aflýst kosningum í dag vegna neyðarástandsins í ríkinu. 

Skólar lokaðir til 20. apríl

Afar drungalegt er um að líta í bandarískum borgum þessa dagana. Þar sem yfirleitt er fullt af fólki sést varla manneskja á ferli, fólk vinnur heima og börn fara ekki í skóla. Frá og með deginum í dag verður öllum næturklúbbum, leikhúsum, kvikmyndahúsum og tónleikum aflýst í New York-borg. Jafnframt verða veitingastaðir lokaðir að öðru leyti en þeir mega afgreiða mat sem fólk tekur með sér eða senda heim til viðskiptavina. Skólar í New York verða lokaðir til 20. apríl hið minnsta. Alls eru nemendur í New York 1,1 milljón talsins.

AFP

Í Los Angeles hefur einnig verið ákveðið að loka veitingastöðum, börum og næturklúbbum í tvær vikur hið minnsta. Þar hafa íbúar sem eru 65 ára og eldri beðnir um að fara í sjálfskipaða einangrun. 

Ríkisstjórinn í Illinois hefur fyrirskipað að veitingastöðum og börum verði lokað í ríkinu til 30. mars.

AFP

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, greindi frá því í gær að um miðjan dag á morgun verði aðeins kanadískum ríkisborgurum og þeim sem eru með varanlegt dvalarleyfi í landinu heimilt að koma til landsins. 

AFP

Flest af stóru bandarísku flugfélögunum hafa tilkynnt um að ferðum verði fækkað um að minnsta kosti 50% og þau hafa óskað eftir ríkisstuðningi upp á að minnsta kosti 50 milljarða Bandaríkjadala. 

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina