Hversu margar rúllur þarftu?

AFP

Eitt af því sem margir hafa hamstrað á tímum kórónuveirunnar er salernispappír og er hann víða uppurinn í verslunum. En hversu mikinn salernispappír þarf hver einstaklingur og hvað er til ráða ef svo ólíklega vill til að birgðir klárist endanlega? Að sjálfsögðu er svarið að finna á þýskri vefsíðu. 

Á vefnum blitzrechner.de  geta neytendur kannað hversu lengi birgðir þeirra munu endast. Aðeins þarf að slá inn hversu margar rúllur þú átt og hefðbundna notkun á salerni. Við svo búið liggur fyrir hvað þú ert öruggur í marga daga. Fyrir þá sem vilja frekari upplýsingar er hægt að setja inn hversu lengi þér er gert að vera í sóttkví og hvað þú notar mörg blöð að meðaltali þegar farið er á salernið.

AFP

Á reiknisíðunni kemur fram að fólki hætti til að ofmeta þörfina fyrir klósettpappír og í raun noti margir miklu meira af klósettpappír en þeir þurfa. Í flestum tilvikum sé nóg að nota 2 blöð við þvaglát. 

Ef svo ólíklega vildi til að það yrði klósettpappírsskortur í heiminum er hægt að nota ýmislegt annað, svo sem eldhúspappír, þvottapoka eða skjótast undir sturtuna. Varað er við því að setja þvottapoka og eldhúsrúllur ofan í klósettið að lokinni notkun því það geti stíflað klósettið. 

Þjóðverjar hafa verið iðnir við kolann þegar kemur að klósettpappírshamstri líkt og margar aðrar þjóðir. Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, er ekki ein þeirra því það sást til hennar kaupa inn fyrir vikuna á föstudag. Þar rataði ein pakkning af salernispappír ofan í körfuna og fjórar vínflöskur. 

mbl.is