Hafa áhyggjur af flóttafólki í faraldrinum

Flóttamaður frá Sýrlandi fær sápu og annan hreinsibúnað.
Flóttamaður frá Sýrlandi fær sápu og annan hreinsibúnað. AFP

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) greindi í dag frá ráðstöfunum sem gripið verður til að reyna að bregðast við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

„Ég hef miklar áhyggjur af faraldrinum og áhrifum hans á flóttafólk og samfélög þeirra. Veiran hefur nú þegar haft mikil áhrif á okkur og við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Við höldum samt sem áður áfram að gera okkar besta til að vernda flóttafólk við erfiðar aðstæður,“ sagði Filippo Grandi, fram­kvæmda­stjóra Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna.

Hann sagði helsta verkefnið snúa að því að flóttafólk væri hluti af aðgerðum þess ríkis þar sem það dvelur og fái allar upplýsingar um gang mál.

Flóttamannastofnunin óskaði eftir 255 milljónum Bandaríkjadala í síðustu viku handa löndum sem munu þurfa sérstaka aðstoð vegna veirunnar.

Þrátt fyrir að staðfest tilfelli kórónuveirunnar meðal flóttafólks séu fá búa um 80% þeirra í löndum þar sem heilbrigðiskerfið er ekki eins og best verður á kosið og því segir Flóttamannastofnunin afar mikilvægt að fylgst verði með þeim.

Meðal ráðstafana sem Flóttamannastofnunin grípur til er að dreifa sápu og auka aðgengi fólks að hreinu vatni í flóttamannabúðum.

Styðja á við ríkisstjórnir og reyna að koma í veg fyrir að smit berist til flóttafólks. Það er gert með hreinlæti og þá verður læknisbúnaði dreift.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, sendi frá sér yfirlýsingu skýrsluhöfundur Evrópuráðsþingsins um ofbeldi gegn börnum á flótta. 

Hún segir börn á flótta standa frammi fyrir enn frekari hættum og óvissu í heilbrigðiskrísunni sem kórónuveirufaraldurinn skapar og enn meiri hætta sé á mannréttindabrotum en áður. 

Rósa Björk hvetur allar evrórpskar ríkisstjórnir og aðrar ríkisstjórnir utan Evrópu að virða Barnasáttmála SÞ á tímum sem þessum og sleppa öllum börnum á flótta sem haldið er í varðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert