Amash íhugar forsetaframboð

Justin Amash er þingmaður Michigan í fulltrúadeildinni.
Justin Amash er þingmaður Michigan í fulltrúadeildinni. AFP

Bandaríski þingmaðurinn Justin Amash, sem yfirgaf Repúblikanaflokkinn vegna óánægju með störf Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, stefnir á að bjóða sig fram til embættis forseta fyrir frjálslynda.

Amash, sem greiddi atkvæði með vantrauststillögu á Trump, hefur sett á laggirnar könnunarráð sem ætlað er að kanna farveginn fyrir framboð. Amash hefur staðið utan flokka frá því hann hætti í Repúblikanaflokknum síðasta sumar. Hann er þingmaður Michigan í fulltrúadeildinni. 

Árið 2017 var fjallað um Amash í Morgunblaðinu en þar sagði: Á meðal þeirra fáu repúblikana sem hafa haldið áfram að bjóða Trump birginn í fulltrúadeildinni er frjálshyggjumaðurinn Justin Amash sem hefur verið sérlega hreinskilinn í gagnrýni sinni á forsetann, m.a. á Twitter. Hann hefur t.a.m. sagt að „stöðugur hræðsluáróður“ forsetans um hryðjuverkaógnina sé „ábyrgðarlaus og hættulegur“. Hann hefur einnig hvatt Trump til að hætta árásum sínum á bandaríska dómstóla og gagnrýnt hann fyrir að tilnefna dómsmálaráðherra sem vill auka eftirlit með borgurunum og rýmka heimild lögreglunnar til að gera eignir þeirra upptækar.

Amash segir að gagnrýnin sé reist á frjálshyggjuhugsjónum. „Í mínum huga skiptir ekki öllu máli hvort repúblikani eða demókrati gegnir forsetaembættinu. Mér ber skylda til að vernda frelsið, réttarríkið og réttindi allra kjósenda minna,“ hefur The Wall Street Journal eftir Amash í febrúar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert