Sóttkví óþörf við komuna til Spánar

Erlendir ferðamenn sem koma til Spánar frá og með 1. …
Erlendir ferðamenn sem koma til Spánar frá og með 1. júlí þurfa ekki að sæta sóttkví við komuna til landsins. AFP

Erlendir ferðamenn sem koma til Spánar frá og með 1. júlí þurfa ekki að sæta sóttkví við komuna til landsins. Yfirvöld á Spáni greindu frá þessu í dag og er ákvörðunin liður í að aflétta þeim ströngu tak­mörk­un­um sem verið hafa í gildi frá miðjum mars­mánuði. 

Um helgina tilkynntu yfirvöld að erlendum ferðamönnum yrði leyft að koma til Spánar á ný í júlí og nú er ljóst að þeir þurfa ekki að fara í sóttkví. Á sama tíma greindu bresk stjórnvöld frá því að allir þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Bretlands frá 8. júní. Bretar sem sjá því fyrir sér að fara í frí til Spánar í sumar þurfa því að fara í sóttkví við heimkomuna. 

Að öllu jöfnu heimsækja um 80 milljónir ferðamanna Spán árlega og ferðamannaiðnaðurinn nemur um 12% af vergri landsframleiðslu. Að opna landið fyrir ferðamönnum í júlí er því áríðandi tilraun til að bjarga efnahagi landsins. 

Ekki liggur fyrir hvort ferðamenn þurfi að framvísa pappírum um heilsufar við komuna til Spánar eða hvort sérstök skimun verði á flugvöllum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert