Fleiri látnir í Brasilíu en Ítalíu

AFP

Yfir 34 þúsund manns eru látnir í Brasilíu af völdum kórónuveirunnar og er Brasilía því komin fram úr Ítalíu hvað fjölda látinna varðar. Aðeins Bandaríkin og Bretland hafa misst fleiri íbúa úr COVID-19 en Brasilía.

Nýjum smitum og um leið dauðsföllum fjölgar hratt í Rómönsku-Ameríku á sama tíma og það dregur hratt úr þeim í Evrópu. Enn hefur ekki fundist bóluefni sem virkar gegn kórónuveirunni og í gær var grein um hydroxychloroquine dregin til baka en greinin birtist í læknatímaritinu The Lancet.

Höfundar greinarinnar segjast ekki lengur vera sannfærðir um gildi gagna sem notuð voru við skrif greinarinnar. Greinin varð meðal til þess að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lét hætta klínískum rannsóknum á lyfinu. 

Um 6,6 milljónir jarðarbúa hafa smitast af kórónuveirunni og yfir 390 þúsund eru látnir. Aldrei hafa jafn margir látist á einum sólarhring í Brasilíu og síðasta sólarhringinn en forseti landsins, Jair Bolsonaro, hefur harðlega gagnrýnt þær aðgerðir sem farið hefur verið í, svo sem að skikka fólk til þess að halda sig heima. Hann segir aðgerðirnar óþarfar og að þær hafi slæm áhrif á efnahag landsins. Eins hefur nýjum smitum fjölgað mjög í Mexíkó, Perú, Ekvador og Chile.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert