Morðrannsókn eftir netárás á sjúkrahús

Hér má sjá tölvuskjá eftir netárás.
Hér má sjá tölvuskjá eftir netárás. AFP

Morðrannsókn er hafin á vegum þýsku lögreglunnar eftir að kona lést á meðan á netárás var gerð á sjúkrahús.

Tölvuþrjótar settu tölvukerfið á Düsseldorf-sjúkrahúsinu á hliðina og lést konan á meðan læknar reyndu að flytja hana yfir á annað sjúkrahús, að sögn BBC.

Saksóknarar í Köln byrjuðu að rannsaka málið í morgun sem manndráp af gáleysi og segja að tölvuþrjótarnir verði hugsanlega látnir svara til saka vegna þess.

Einn sérfræðingur sagði að ef þrjótarnir verða dæmdir verður þetta fyrsta kunna tilfellið þar sem manneskja lætur lífið vegna netárásar.

Ráðist var á tölvukerfi sjúkrahússins aðfaranótt 9. september og þess krafist að lausnargjald yrði greitt.

Konan, sem var frá Düsseldorf, átti að gangast undir aðgerð sem átti að bjarga lífi hennar á sjúkrahúsinu. Vegna árásarinnar þurfti að flytja hana yfir á sjúkrahús í Wuppertal sem er um 30 kílómetrum í burtu.

Ætluðu ekki að ráðast á sjúkrahúsið

Einhverjir þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að tölvuþrjótarnir hafi ekki ætlað að ráðast á sjúkrahúsið heldur tölvukerfi háskóla. Þegar þeir hafi áttað sig á mistökunum eru þeir sagðir hafa látið sjúkrahúsið hafa lausnarlykil án þess að krefjast greiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert