Krefst 140 milljóna vegna teymingar lögreglu

Lögreglumennirnir teymdu Neely á milli sín handjárnaðan í reipi.
Lögreglumennirnir teymdu Neely á milli sín handjárnaðan í reipi.

Svartur bandarískur karlmaður sem var teymdur um götur Texas af tveimur hvítum lögregluþjónum á hestbaki hefur ákært Galveston-borg fyrir framferði lögregluþjónana. Maðurinn fer fram á milljón Bandaríkjadali, því sem jafngildir tæplega 140 milljónum króna. 

Lögreglan í Galveston baðst opinberlega afsökunar á síðasta ári þegar myndband af atvikinu kom í ljós. Maðurinn heitir Donald Neely og er nú 44 ára. 

Í ákærunni á hendur Galveston kemur fram að hegðun lögregluþjónanna hafi verið óafsakanleg og valdið Neely bæði líkamlegum og andlegum skaða.  

Eftir að myndbandið var gert opinbert á síðasta ári bentu margir á það að atvikið svipaði til framkomu við svarta Bandaríkjamenn á tímum þrælahalds þar í landi. 

Neely, sem var heimilislaus þegar atvikið átti sér stað og glímdi við geðræn erfiðleika, var sofandi á gangstétt þegar hann var vakinn af lögregluþjónunum og handtekinn fyrir að vera þar í óleyfi. Ákærur á hendur honum voru látnar niður falla fyrir dómstóli.

Frétt BBC. 

mbl.is