Laschet staðfestur sem kanslaraefni CDU

Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata og kanslaraefni flokksins fyrir þingkosningar …
Armin Laschet, formaður Kristilegra demókrata og kanslaraefni flokksins fyrir þingkosningar sem fram fara 25. september. AFP

Armin Laschet, formaður Kristilega demókrataflokksins í Þýskalandi, verður kanslaraefni flokksins fyrir þingkosningar sem fram fara í september. Þetta varð ljóst á fundi miðstjórnar flokksins á miðvikudag.

Eftir sex klukkustunda samtal gengu miðstjórnarfulltrúar, sem eru 46, til kosninga. Fór svo að tæp 78% þeirra sem tóku afstöðu kusu Laschet en 22% Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands. Niðurstöðurnar ættu ekki að koma á óvart, en vika er síðan fréttaveita AFP taldi sig hafa heimildir fyrir því að þetta yrði raunin.

Venjulega ættu formenn flokksins að geta gengið að því vísu að verða kanslaraefni hans, en allt frá því Laschet var kjörinn í embættið fyrr á árinu hafði þótt ljóst að fleiri myndu sækjast eftir útnefningunni, þeirra helst Söder sem nýtur feiknavinsælda í Bæjaralandi þar sem systurflokkur CDU, CSU, ræður ríkjum.

Söder mun vinsælli meðal almennings

Ljóst er að gjá er milli miðstjórnar CDU og þjóðar í þessum efnum, því í nýlegri skoðanakönnun þýska ríkisútvarpsins ARD sögðust 44% Þjóðverja telja Söder hæfastan til að leiða kosningabandalag CDU-CSU samanborið við 15% sem nefndu Laschet.

Fylgi bandalagsflokkanna mælist heldur lágt um þessar mundir, á sama tíma og Angela Merkel undirbýr brotthvarf sitt úr stjórnmálum eftir sextán ár í embætti kanslara. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum ætla 28% Þjóðverja sér að kjósa CDU-CSU samanborið við 32,9% í síðustu kosningum. Fylgið hefur fallið skarpt að undanförnu eftir að hafa náð allt að 40% síðasta sumar.

Á sama tíma hafa Græningjar sótt í sig veðrið og eru nú skyndilega orðnir næststærsti flokkur landsins, með um og yfir 20% fylgi í könnunum.

mbl.is