Var „mjög virkur“ og smitaður

Frá bólusetningu í áströlsku borginni Melbourne. Myndin er úr safni.
Frá bólusetningu í áströlsku borginni Melbourne. Myndin er úr safni. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu hafa verulega áhyggjur af kórónuveirusmiti sem fannst hjá karlmanni í Nýju Suður-Wales í Ástralíu á dögunum vegna mikillar „virkni“ hans á sama tíma og hann var hugsanlega smitandi. 

Guardian greinir frá.

Yfirvöld segja manninn, sem er á fimmtugsaldri, hafa verið „mjög virkan“ í austurhluta Sydney, áður en hann fór í sýnatöku á þriðjudag. Maðurinn var mjög samvinnuþýður og gaf þeim sem sinna rakningu upp ýmsa staði sem hann hafði heimsótt, þar á meðal kvikmyndahús og nokkrar grillbúðir. 

Mældist með mikið veirumagn

Heilbrigðisyfirvöld reyna nú af fullum mætti að hafa samband við fólk sem gæti hafa verið útsett fyrir smiti á þessum stöðum. Þá er ekki vitað hvernig maðurinn smitaðist, en mjög lítið er um smit í Ástralíu. Maðurinn hafði ekki farið út fyrir landsteinana upp á síðkastið og vinnur hann ekki á sóttkvíarhóteli, við landamæragæslu eða í heilbrigðiskerfinu. 

Kerry Chant, yfirheilbrigðisfulltrúi Nýju Suður-Wales, sagði málið áhyggjuefni vegna þess að sá smitaði mældist með mikið veirumagn í sér og sé því mögulega mjög smitandi. 

mbl.is