Johnson ekki orðið var við hótanir eða mútur

Johnson segir að málið verði skoðað.
Johnson segir að málið verði skoðað. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segist ekki hafa séð neinar vísbendingar um að meðlimir ríkisstjórnar hans hafi reynt að hóta eða múta þingmönnum Íhaldsflokksins sem vilja að hann stígi til hliðar. BBC greinir frá.

Willam Wragg, einn þingmanna flokksins, sagði í gær að þrýst hefði verið á þingmenn um að falla frá kröfum sínum um afsögn forsætisráðherrans. En kröfur innan flokksins um að Johnson stigi til hliðar, hafa orðið háværari eftir að upp komst að hann sótti hundrað manna veislu í Downingstræti 10, þegar útgöngubann var í gildi í Bretlandi.

Wragg sagði þingmönnum hafa verið ógnað og þeim meðal annars hótað slæmri umfjöllun opinberlega og að þeir fengju ekki úthlutað fé úr sameiginlegum sjóðum flokksins.

Ráðlagði Wragg kollegum sínum sem upplifðu að þeim hefði verið ógnað, að leita til lögreglunnar.

Johnson segist ekki hafa séð neinar vísbendingar um að ásakanir Wragg séu á rökum reistar, en það verði skoðað.

The Times greindi svo frá því í dag að þeir þingmenn Íhaldsflokksins sem vildu að Johnson segði af sér, hefðu hist og borið saman bækur sínar. Þeir væru að íhuga að gera gögn opinber sem sýndu fram á hvernig þeim hefði verið hótað eða ógnað.

mbl.is