Íslandsvinur stríðsfangi í Maríupol

Júlíja Pajevska, betur þekkt sem Taíra, hefur aðstoðað fjölda fólks …
Júlíja Pajevska, betur þekkt sem Taíra, hefur aðstoðað fjölda fólks frá því að stríðið á Krímskaga hófst árið 2014. Hún heimsótti Ísland árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Vinkona Ljúbómíru Petrúk, formanns Félags Úkraínumanna á Íslandi, er nú stríðsfangi Rússa í hafnarborginni Maríupol í Úkraínu þar sem hörð átök hafa geisað síðustu daga.

Júlíja Pajevska, betur þekkt sem Taíra, býr í Kænugarði og hefur sinnt ýmsum sjálfboðaliðastörfum síðan Rússar hertóku Krímskaga árið 2014. 

Fyrir þann tíma kenndi hún aikido sem er japönsk bardagalist og var forseti Mutokukai aikido-sambandsins í Úkraínu. Þá hefur hún einnig tekið þátt í íþrótta­leik­un­um The In­vict­us Games fyrir hönd Úkraínu.

Er stríðið á Krímskaga hófst veitti hún læknisaðstoð og hjálpaði fólki að flýja úr Donbas-héruðum ásamt öðrum sjálfboðaliðum undir nafninu „Englar Tairu“.

Að sögn Ljúbómíru hefur teymið bjargað hátt í 600 slösuðum hermönnum og veitt um átta þúsund almennum borgurum læknisaðstoð.

Ljúbómíra Petrúk er lengst til vinstri og við hlið hennar …
Ljúbómíra Petrúk er lengst til vinstri og við hlið hennar stendur Júlíja Pajevska og heldur á syni Ljúbómíru. Ljósmynd/Aðsend

Fór til Maríupol til að hjálpa fólki

Taíra hefur verið í Maríupol að mestu síðan árið 2014 að aðstoða fólk við að flýja og veitt læknisaðstoð.

Að sögn Ljúbómíru telja Rússar að Taíra vera hættulega og því ein af ástæðum innrásar Rússa, Ljúbómíra segir það hins vegar rangt.

„Taíra fór til Maríupol til að hjálpa fólki. Í borg sem hefur verið sprengd í tætlur.“

Hún segir að aðstæður í Maríupol séu skelfilegar. Sífellt séu sprengingar og fólki búi við algjöran hrylling. 

„Rússar senda inn sjúkrabíla fulla af vopnum, ekki sjúkrabirgðum. Ekki einu sinni fyrir sína eigin hermenn. Þeim er sama um Úkraínumenn og einnig um sitt eigið fólk.“

Ljúbómíra sá síðast færslu frá Taíru 13. mars á Facebook. Hún segist óttast um að Taira sé ekki lengur á lífi. „Við getum bara vonað.“

Þakklát fyrir hvíld á Íslandi

Taíra kom til Íslands árið 2017 í boði Félags Úkraínumanna á Íslandi og var það í fyrsta sinn sem hún fékk frí frá árinu 2014. Ljúbómíra segir að hún hafi verið afar þakklát fyrir að fá hvíld.

„Stundum er erfitt að skilja atburði heimsins en á þessum stríðstímum minnist ég tímans míns á Íslandi. Ég finn fyrir mikilli hlýju þegar ég hugsa til heimsóknar minnar og sérstaklega til gestgjafa okkar,“ sagði Taíra um Íslandsförina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert