Páfinn vill hitta Pútín

Frans páfi í Vatíkaninu á sunnudaginn.
Frans páfi í Vatíkaninu á sunnudaginn. AFP

Frans páfi hefur óskað eftir fundi í Moskvu, höfuðborg Rússlands, með forsetanum Vladimír Pútín vegna stríðsins í Úkraínu en ekkert svar hefur borist.

Frans, sem er 85 ára, sagði við ítalska dagblaðið Corriere Della Sera að hann hafi sent skilaboð til Pútíns þegar um 20 dagar voru liðnir frá innrás Rússa þar sem hann sagðist „vera tilbúinn til að fara til Moskvu“.

„Við höfum enn ekki fengið svar og erum enn að óska eftir fundinum, en ég óttast að Pútín geti ekki og vilji ekki eiga þennan fund á þessum tímapunkti,“ sagði páfinn.

Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP

Hann hefur ítrekað óskað eftir friði í Úkraínu og talað um „grimmilegt og tilgangslaust stríð“ án þess að minnast nokkru sinni á Pútín eða stjórnvöld í Moskvu með nafni.

Í síðasta mánuði ræddi páfinn við forseta Úkraínu um stríðið í gegnum fjarfundarbúnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert